Ytri-Rangá á toppnum, sá stóri slapp
„Við vinirnir vorum að koma úr Ytri-Rangá. Við grínumst oft með það að við séum einhendugengið,“ segir Ásgeir Ólafsson og bætir við; „þegar við mætum til veiða í Ytri, enda notum við eingöngu einhendu flugustangir sem eru að mínu mati allt of lítið notaðar í Ytri Rangá. Við áttum mjög skemmtilega daga við árbakkann í blíðskaparveðri, fengum 22 laxa á tvær stangir í tvo daga. Vorum bara mjög ánægðir með það jafnvel þótt laxarnir hafi verið tveimur fleiri fyrir ári síðan. Annars verður þessi túr í mínu minni túrinn þar sem ég missti RISA laxinn í Stallmýrarfljóti. Ég setti í ansi vænan og skemmtilegan höfðingja um kvöldið á fyrstu vakt. Þessi stóri hængur var mjög fjörugur og tók nokkrar svakalegar rokur og stökk þrisvar sinnum með miklum tilþrifum. Ætli ég hafi ekki verið búinn að togast á við höfðingjann í sirka 10-12 mínútur og það að mestu leyti á undirlínu, þegar hann ákvað að rjúka niður úr Stallmýrarfljótinu. Ég var uppi á háum grasbakka og þurfti að hoppa út í á og elta fiskinn niður á meðan undirlínan var hættulega nálægt því að klárast af hjólinu. Á endanum náði ég að hlaupa á eftir fisknum og vinna inn undirlínuna. Við strákarnir vorum komnir vel niður fyrir Stallmýrarfljót þegar höfðinginn á hinum endanum á línunni ákvað að stoppa og leggjast þungt í. Ég ákvað að setja aukna pressu á þann stóra eða eins mikið og ég treysti 15 punda taumefninu fyrir. Stuttu síðar losnar úr fisknum og draumurinn um að landa þeim stóra var úti. Ég hugsaði með mér að ég yrði brjálaður út í sjálfan mig ef ég hafi slitið úr höfðingjanum eftir allt sem undan var gengið og loksins þegar mér fannst ég vera kominn með yfirhöndina í einvíginu. Sem betur fer kom flugan (Rauður Frances nr 12) til baka en einn krókur af þremur ílla boginn.
Hef náð nokkrum 8 kg löxum í gegnum tíðina og einum 8,8 kg en þessi fiskur var í annari deild,“ segir Ásgeir enn fremur.
Ytri Ranga er toppnum þessa dagana.