Álftin er stærsti varpfugl landsins. Hún er eini innlendi svanurinn og auðþekkjanleg frá öðrum íslenskum fuglum á stærð, lit og löngum hálsi. Fullorðin álft er alhvít en tekur oft á sig ryðrauðan lit úr mýrarauða á höfuð og háls og nær sá litur stundum niður á bringu og kvið. Ungfugl og fugl á fyrsta vetri eru gráleitir en lýsast þegar líður á vetur og eru að mestu orðnir hvítir að vori. Kynin eru eins í útliti, en karlfuglinn ívið stærri. 

Flugið er kröftugt með sterklegum, hægum vængjatökum. Álftin teygir hálsinn beint fram á flugi en heldur honum lóðréttum á sundi. Hún hleypur á vatni þegar hún hefur sig til flugs. Félagslynd, venjulega í hópum nema á varptíma en þá verja hjónin óðal. Álftir fella flugfjaðrir síðsumars, eru þá ófleygar um tíma og er þá sagt að þær séu „í sárum“.

Fæða og fæðuhættir: 
Álftin er grasbítur, sem lifir mest á vatnagróðri eins og störum, fergini, mara og nykrum. Fer einnig í tún og á grunnsævi og í sjávarlónum er marhálmur, lónajurt og grænþörungar aðalfæðan. Hálfkafarar oft til að ná til botns í dýpra vatni.

Kjörlendi og varpstöðvar
Álftin heldur sig á vötnum, tjörnum og í votlendi á sumrum og verpur á bökkum, í hólmum eða mýrum. Hreiðrið er stór dyngja úr gróðri sem fuglarnir reyta upp, fóðrað með dúni. Þeir nota oft sama hreiðurstæðið ár eftir ár. Kjörsvæði geld-, felli- og farfugla eru lífrík vötn, ár og óshólmar, einnig lygnir vogar og strandlón

Útbreiðsla og ferðir
Álftin er að mestu farfugl. Hún verpur um land allt, geldfugla- og fellihópar eru víða en vetursetufuglarnir sjást aðallega á Suður- og Suðvesturlandi og Mývatni. Flestar álftir fljúga héðan til Bretlandseyja á haustin, aðallega til Írlands. Álftin verpur í Norður-Evrópu, austur um Rússland og Síberíu, allt að Beringssundi.


Fræðiheiti: Cygnus cygnus