Fréttir

Erfitt að lesa í vatnsmiklar ár til að sjá þann silfraða

Mynd/María Gunnarsdóttir

Það styttist verulega í laxveiðina en hún byrjar 1. júní í Þjórsá.  Þar hefst allt klukkan átta um morguninn og Stefán Sigurðsson er orðinn spenntur að opna veiðitímann með vöskum veiðimönnum. „Já við erum orðin spennt að byrja veiðina,” sögðu Stefán og Harpa Hlín Þórðardóttir um opnunina. Það hafa margir kíkt eftir laxi en lítið séð hreyfast í straumnum.  Ásgeir Heiðar sá lax í Elliðaánum en var ekki viss hvort um nýjan lax hafi verið, líklega bara niðurgöngufiskur sem fáir hafa áhuga á að veiða.

„Ég skoðaði á nokkrum stöðum um daginn en sá lítið sem var eins og fiskur, vatnið hefur reyndar verið mikið í ánum síðustu daga. Maður mætti alveg fara að sjá eitthvað,“ sagði veiðimaður sem hefur kíkt í Elliðaárnar, Laxá í Kjós og Laxá í Leirársveit, en lítið séð nema bullandi vatnið.

Veiðimenn sáu laxa við Seleyri um daginn en lítið hefur gerst síðan. Laxinn kemur, hann er á leiðinni en skemmtilegra væri að sjá eitthvað sem líkist laxi.