Það var hress hópur sem hélt til veiða í Slóveníu núna í byrjun maí, hópur sem innihélt fjórtán veiðikonur. Hópurinn flaug til Munchen og keyrði svo til Ljublijana í Slóveníu þar sem tekið var á móti þeim á hóteli í miðbæ borgarinnar.

Slóvenía þykir ein af perlum Evrópu þegar kemur að veiði á silungi og kvennahópurinn íslenski fór ekki varhluta af því. Þrátt fyrir erfitt veður hluta af ferðinni þá veiddi hópurinn mjög vel. Aflinn samanstóð af marmaraurriða, staðbundnum urriða, regnbogasilungi og greyling. Einnig komu á land nokkrir blendingar, þ.e. blanda af marmaraurriða og stðanbundnum. Það kom hópnum á óvart bæði hversi mikið veiddist og ekki síður hve stór fiskurinn getur verið, eða allt að 75 sm.

Hópurinn veiddi í nokkrum ám í Slóveníu í þrjá heila daga, undir styrkri leiðsögn heimamanna, sem þekkja auðvitað hvern stein og hverja þúfu. Þannig fóru þrjár veiðikonur með hverjum leiðsögumanni og hóparnir fóru yfirleitt á ólíka staði. Leiðsögumennirnir sóttu hópinn um kl. 8 á morgnana og svo var veitt fram undir kvöld.

Að veiða í Slóveníu er einstök upplifun. Umhverfið er magnað og árnar kristaltærar á góðum degi. Umhverfið er framandi fyrir íslenska veiðimenn og -konur því trjágróður er yfirleitt mikill við árbakkann. Veltiköstin æfast því vel í Slóveníu! Veiðiaðferðin sjálf er að ýmsu leiti svipuð. Hópurinn veiddi á púpur með tökuvara (sem má þó ekki nota alls staðar), straumflugur og þurrflugur, nettum græjum. En einnig voru reyndar nýjar aðferðir eins og „Euro-nymphing“ sem er framandi fyrir margan Íslendinginn.

Það er óhætt að mæla með því að prófa veiði í öðrum löndum og að veiða í Slóveníu er ógleymanleg upplifun. Það eru Flyfishing agency sem selur ferðir til Slóveníu. Fyrir þá sem hafa áhuga þá er sjálfsagt að benda á heimasíðuna https://www.flyfishing.agency.