Fréttir

Frábær veiðitúr í Leirvogsá

„Við fórum sem sagt fjórir. Áin var í kjörvatni í dag og aðstæður eins og best verður á kosið. Þetta hefur verið fastur liður hjá okkur að byrja veiðitímabilið í vorveiðinni í Leirvogsá og hún hefur aldrei brugðist okkur,“ sagði Óskar Örn Arnarsson og bætti við; „settum í fisk í Hornhyl. Urðum ekkert varir fyrir ofan það, veiddum upp að Húsbreiðu. Lönduðum fiskum í Breiðhyl, Gömlu Brú, Neðri Skrauta, Fitjaskotshyl og ómerktum stað fyrir neðan Móhyl. Hef það á tilfinningunni að fiskurinn sé meira á neðra svæðinu núna. 

Enduðum með að landa 8 fiskum og misstum 4 eða 5. Veiðifélagarnir voru Örn Sigurðar, Jónas Þór og Daníel Friðriks,“ sagði Óskar Örn enn fremur um frábæran veiðitúr í Leirvogsána.