Gargönd er sjaldgæf önd. Hún er ívið minni og grennri en stokkönd en annars eru kollur þeirra mjög líkar. Steggur líkist kollu meira en hjá öðrum buslöndum. Hann er grár, brúnni á höfði og hálsi, með svartyrjótta bringu, brúnar axlafjaðrir, svartan afturenda og grátt stél. Kviður er ljós. Í felubúningi verður steggur vart greindur frá kollu. Kollan minnir á stokkandarkollu, en er grárri, minni og grennri, með hnöttóttara höfuð, og gogg og vængspegla í öðrum litum. Bæði kyn hafa hvíta spegla með svörtum jöðrum og ryðrauða bletti á vængþökum. 

Atferli er svipað og hjá stokkönd. Gargöndin er hraðfleyg og einnig góður sundfugl, fremur felugjörn og lætur lítið á sér bera. Er í pörum eða smáhópum, venjulega innan um aðrar buslendur.

Fæða og fæðuhættir: 
Er aðallega grasbítur, en etur einnig dýrafæðu. Tekur græna plöntuhluta nykra, grænþörunga, o.fl., einnig fræ, en uppistöðufæða unga og ungamæðra er dýrakyns.

Fræðiheiti: Anas strepera
Fuglavefurinn