Fréttir

Verður sumarið fengsælt í laxveiðinni?

„Það verður erfitt að segja til um sumarið, það veit svo sem enginn hvernig það verður. Laxinn er allavega kominn víða í árnar, eins og Norðurá, Þverá, Þjórsá og Ölfusá. Ég held bara að þetta verði sæmilegt sumar,“ sagði veiðimaður við Elliðaárnar í dag en hann var að leita af því sama og margir aðrir þessa dagana; fyrsta laxinum í ánum.  „Laxinn er ekki sjáanlegur í Elliðaánum en hann er á leiðinni, það er heila málið, vatnsstaðan er góð núna en það þarf að rigna verulega í sumar,“ bætti veiðimaðurinn við. 
Það verður spennandi að sjá hver á að opna Elliðaárnar að þessu sinni, það liggur bara alls ekki fyrir. Reyndar opna Elliðaárnar ekki fyrr en 20. júní og það eru enn nokkrir dagar þangað til; verður það Einar Þorsteinsson, Dagur B. Eggertsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og eða Dóra Björt Guðjónsdóttir? Þórdís Lóa getur skroppið með stöngina ef ekki verður kominn meirihluti og opnað árnar fyrir hönd borgarstjórnar, hún er vön veiðum og hörku veiðimaður á lax og silung.

Á miðvikudaginn opnar Þjórsá og verður spennandi að sjá hvernig veiðin fer af stað, miklir veiðimenn byrja veiðitímann í ánni og sumarið gæti alveg orðið fengsælt. Ýmsar blikur eru þó á lofti eins og tilkoma hnúðlaxa, sem veiddust talsvert í 60 veiðiám síðasta sumar, það er ansi mikið af þessum sérkennilega fiski.

Myndir. Hann er á í Laxá í Kjós. Mynd: Haraldur.