Rauðhöfðaönd er meðalstór önd, nokkru minni en stokkönd, með hnöttótt höfuð, stuttan háls, lítinn gogg, fleyglaga stél og langa, mjóa vængi. Steggurinn er með rauðbrúnt höfuð og rjómagula blesu frá goggrótum aftur á kollinn og grængljáandi rák aftan augna. Hann er rauðbleikur á bringu, gráyrjóttur að ofan og á síðum, stél svart með gráum jöðrum, áberandi hvítur blettur milli stéls og síðu.Axlafjaðrir eru svartar með hvítum bryddingum. Fullorðinn steggur er með hvítan áberandi blett á framvæng sem myndar hvítt band meðfram síðum á aðfelldum væng. Ársgamall steggur er án þessa einkennis. Í felubúningi er hann dekkri en kolla, oft rauðbrúnni og vængbletturinn sjáanlegur. Kollan er grá eða dökkrauðbrún, flikrótt að ofan með jafnlitari síður og bringu. Framhluti vængs er grár. Bæði kyn hafa hvítan kvið og dökkgræna vængspegla. 

Rauðhöfðaönd flýgur hratt með örum vængjatökum. Hún virðist fremur framþung og er oft með inndreginn háls á sundi. Sést oft á beit á landi. Hún er félagslynd utan varpstöðva og mynda steggir í felli oft stóra hópa.

Fæða og fæðuhættir: 
Rauðhöfðinn er mestur grasbítur meðal anda, bítur jafnt í vatni sem á landi, þráðnykra, mýrelfting og gras eru mikilvægar fæðutegundir. Notfærir sér gróður sem álftir og kafendur róta upp á yfirborðið og því eru rauðhöfðar tíðir í þeirra hópum. Etur grænþörunga og marhálm í fjörum.

Fræðiheiti: Anas penelopeFuglavefurinn
Texti: Fuglavefurinn
Mynd María Björg Gunnarsdóttir