Fréttir

Mikið af laxi komið í Elliðaárnar – veiðin hefst í fyrramálið

Veiðimenn hafa séð töluvert af laxi í Elliðaánum síðustu daga og sama staðan var í kvöld þegar kíkt var, lax niður alla Breiðuna nýkominn á flóðinu. Hægt var telja alla vega 25 laxa sem sást til og síðan var lax að stökkva í Fossinum. Veiðin hefst með fluguveiði í fyrramálið og þá getur allt gerst.

Jóhann Davíð Snorrason sá alla vega 10 laxa fyrir nokkrum dögum í Fossinum  og þeir reyndu ítrekað að stökkva upp fossinn með misjöfnum árangri. Ásgeir Heiðar sá laxa og Eysteinn Orri Gunnarsson segist líka hafa séð laxa fyrir einhverjum dögum.

Laxinn er greinilega mættur og vatnisbúskapurinn er góður eftir rigningar í nokkrar klukkustundir í dag. Nú þarf að finna réttu fluguna til að fá laxana til að bíta á þegar opnar á morgun.

Mynd: Kíkt eftir fiski í Elliðaánum en mikið komið af fiski í árnar. Mynd Maria Gunnarsdótttir.