Martin Kaluschke, veiðifélagi frá Brimarborg og algjör meistari í fluguveiði


SPORTVEIÐIBLAÐIÐ 3. tbl 2023
Erling Ingvason

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað togar okkur alltaf aftur út að veiða og hvað gerir veiðitúrinn góðan. Nú er það ekki svo að það sé neitt lítið fyrirtæki að fara í veiðitúr, það þarf að undirbúa hann með góðum fyrirvara og láta af hendi rakna nokkurt fé, það þarf að hafa til alls konar græjur og bíl sem bilar ekki á leiðinni, ef maður misskilur málið kaupir maður 20 milljóna króna drossíu á raðgreiðslum en ef maður vill bara komast alla leið velur maður gamlan og traustan Cherokee eða Hi-Lux og veiðir fyrir mismuninn. Ég vil ekki eyða orkunni í flotta veiðibíla, ég vil eyða henni í flotta veiðifélaga.

Ég setti fram kenningu fyrir nokkrum árum, þar sem við sátum þrír saman, ég, Helmut Longin, vinur minn frá Austurríki og Bubbi Morthens í veiðihúsinu í Árnesi við Laxá í Aðaldal. Hún er þannig að góður veiðitúr hvílir á þremur meginstoðum: góðum félagsskap, fallegu umhverfi (veiðihús og aðbúnaður eru þar innifalin) og að lokum veiðinni sjálfri. Þetta er engin kjarneðlisfræði, meira svona einföld pæling.

Þeir voru mér nokkurn veginn sammála en Bubbi bætti því við að maður þyrfti að vera sáttur við sjálfan sig, sem er auðvitað hárrétt hjá honum og frumskilyrði þess að vera skemmtilegur, líða vel og geta gefið af sér. Maður sjálfur er fyrsta persónan í „við veiðifélagarnir“.
Að vera einn úti í náttúrunni er auðvitað allra meina bót og nútímamaðurinn gleymir því gjarnan í dagsins önn, bara smá göngutúr gerir manni gott.

Þetta vekur upp hugrenningar um löngu liðna veiðitúra þar sem hófs var ekki gætt við neyslu göróttra drykkja og líðanin var eftir því, þá vildi það gerast að mórallinn dapraðist meðal veiðifélaganna og árangurinn við veiðarnar líka, þá brenndist líka fyrir skynjunina á fegurð náttúrunnar og veiðitúrinn lenti allur í ruslinu. Þá var betur heima setið en af stað farið.

Það fylgir því að vera ungur að vera spenntur og eitt sinn vorum við ungir og þá gerðist það að við vorum á leið í Hafralónsá í Þistilfirði og komum við á Húsavík til að kaupa vistir til þriggja daga veiðitúrs. Þegar við vorum búnir í „Kuffilaðinu“ fórum við niður á Gamla Bauk til að fá okkur kaffi. Við sátum þar um tíma og sötruðum kaffi og fylgdumst með mannlífinu en þá hrökk einn við og sagði: „Strákar, klukkan er að verða þrjú, það er klukkutími í veiði“. Við það þustu allir frá borðinu, út í bílana og reykspóluðu áleiðis til Þistilfjarðar. Svo um kvöldið, þegar menn komu í hús og ætluðu að fá sér eitthvert snarl, var gripið í tómt því að allir pokarnir gleymdust undir borðinu á Gamla Bauk!

Aftur að kenningunni, hún felur það í sér að ef eitt er síðra. t.d. aflinn (og sérstaklega gildir þetta nú á tímum „veiða og sleppa“ þar sem „aflinn“ sem komið er með heim er oftast lítill eða enginn), má vinna það upp með vönduðum félagsskap og fallegri náttúru. Ég man ekki eftir því að hafa veitt í svo aumri sprænu eða vatni á Íslandi að ekki megi njóta umhverfisins og teyga að sér orku náttúrunnar, þessi þáttur er því nánast sjálfgefinn hér á landi.

Menn eru svolítið að vinna með að hafa flottari aðbúnað og meiri íburð í mat og drykk. Það gerir eflaust mikið fyrir suma en höfðar ekki til mín. Mér og flestum veiðifélögum mínum finnst þetta fínerí í veiðihúsum frekar þreytandi og takturinn, þar sem verið er að graðka í sig margrétta stórmáltíðir undir miðnætti við glasaglamm, hentar okkur ekki.

Þegar við erum í sjálfsmennsku er maturinn í einfaldari kantinum og íslenskar landbúnaðarafurðir eru þar í hásæti: skyr með rjóma í morgunmat, harðfiskur með sméri um miðjan daginn og lambalæri í kvöldmat sem er hafður á eðlilegum tíma eða um klukkan 18 þ.e. um miðaftan en ekki miðnætti. Eina innflutta fæðan er þá kaffi sem drukkið er af miklum móð og Prins Póló sem þykir gott út á skyrið. Við erum hálfgerðir merkantílistar í veiðitúrum og reynum að versla í heimabyggð þar sem við erum.

Í þessum túrum sofum við eins og englar og komum hvíldir og endurnærðir heim en ekki útkeyrðir og fimm kílóum feitari en þegar við fórum af stað eins og stundum vill brenna við í fínni veiðihúsum landsins enda gildir einu hversu einlægt við strengjum þess heit að skilja eftirréttinn eftir ósnertan, alltaf skulum við enda með að svíkja þau og gomsa í okkur crème Brulée-ið eða tíramisúið með jafn mikilli áfergju, já holdið er veikt og kokkarnir lúmskir.

Þá erum við komin að þriðju stoðinni: Veiðifélögunum en val á þeim er gríðarlega mikilvægt atriði, eðli málsins samkvæmt og ætti að vera það fyrsta sem menn skoða ef ætlunin er að hafa veiðitúrinn góðan.

Ég er mjög heppinn hvað þetta varðar og notast eingöngu við þrautreynda vini og veiðifélaga sem eru fyrsta flokks og vil helst ekki blanda neinum nýjum í þann kokteil, við erum flestir t.d. búnir að afgreiða Bakkus og hleypum honum ekki með, ég segi flestir en þó ekki allir, menn verða auðvitað að hafa það eins og þeim hentar.

Ómar Gunnarsson, æskuvinur minn, frændi og veiðifélagi, sagði til dæmis skilið við Bakkus og kom þá út úr skápnum sem afburða slyngur veiðimaður, nú er hann farinn að kenna mér á fínni blæbrigði fluguveiðanna sem leiddi hann fyrstu skrefin á þeirri braut fyrir áratugum, já eggið er farið að kenna hænunni.

Eitt lærði ég af vinum mínum og góðum veiðifélögum, þeim Friðriki Þór Friðrikssyni og Grími Björnssyni og vildi nefna hér í þessu sambandi, en það er að njóta en ekki þjóta. Þetta gildir ekki aðeins á skíðum heldur líka um veiðitúra. Algjör óþarfi er að keyra á 100 km hraða í og úr veiðitúrum, það er um að gera að taka lengri leiðina heim og njóta þess að sjá nýja staði og endurnýja kynnin við gamla, þannig gerast líka oft ævintýri og maður enduruppgötvar landið sem við elskum svo mjög.

Einn góðan veiðfélaga missti ég í sumar sem leið, Magnús Lórenzson á Akureyri. Hann var algjör gullmoli, alltaf í góðu skapi og jafnspenntur þegar við lögðum af stað í veiðitúr, veiðidellan hans rénaði ekkert þó að árin færðust yfir.

Við veiddum oft vel í Fljótinu (Skjálfandafljóti) en það stendur þó ekki mest eftir þegar ég hugsa til Magnúsar, heldur bjarminn af honum og hlýjan, einlægur áhugi hans á fólkinu sínu og mínu líka. Ég ætla að reyna að taka mér hann til fyrirmyndar og vera forvitið náttúrubarn með veiðdellu á háu stigi, allan þann tíma sem mér hlotnast. Nú er Magnús kominn yfir hið eilífa Fljót sem bíður okkar allra. Blessuð sé minning vinar míns og veiðifélaga, Magga Lór.

Ef þessi kenning mín heldur vatni ætti að vera hægt að gera frábæran veiðitúr í algjöra veiðileysu ef félagsskapurinn er nógu góður og það hefur nú margsannast á þessum síðustu og verstu veiðileysutímum og mun reyna enn meira á ef sjókvíaeldið fær að grassera áfram og gera illt miklu verra.

Eins er hægt að lenda í mokveiði en vera samt í glötuðum veiðitúr vegna erfiðra samferðamanna eða ofríki Bakkusar eða hvað sem það er, þið skiljið hvað ég á við. Hlutirnir jafna hverjir aðra út að einhverju leyti en félagsskapurinn er alltaf aðalatriðið. Þetta er hægt að ræða endalaust því að þetta fyrirbæri er eins og allt annað í mannlífinu í gráum tónum og menn hafa misjafnar áherslur eins og gengur.

Væri ekki, til dæmis, fyrir lotteríið sem fer í gang þegar maður mætir í veiðihús og hittir 10, 20 eða 30 nýjar manneskjur, hefði maður misst af mörgum snillingum og eins sumum svo leiðinlegum að við segjum enn sögur af þeim, mörgum árum seinna. Það er nefnilega hægt að vera svo leiðinlegur að maður er kominn hringinn og orðinn skemmtilegur, skemmtilega leiðinlegur. Flestir eru auðvitað þarna í miðjunni og svo er einhver normaldreifing til hliðanna, maður á að leitast við að hafa með sér menn sem eru einu staðalfráviki eða meira frá meðaltalinu til hægri á skemmtiskalanum, til vara að þeir séu svo klárir að það sé hægt að hlusta á fyrirlestrana þeirra og hafa af því bæði gagn og gaman.

Maður er alltaf að læra og í sumar lærði ég t.d. að það sem sat eftir í hausnum á mér eftir viku veiðitúr til Norður-Noregs, var ekki það að ná að landa stærsta laxi lífs míns, 35 punda ferlíki, heldur hitt að finna vini og veiðifélaga samgleðjast mér af öllu hjarta og njóta með mér náttúru Norður-Noregs sem er svo kunnugleg en þó svo framandi. Ætli það sé ekki í erfðaefninu okkar að líða vel í skógum Skandinavíu, við höfum jú ekki verið hér á landi nema í 30–40 kynslóðir.

Nú þegar ég er búinn að skrifa þessar pælingar sýnist mér ég þurfa að einfalda kenninguna aðeins og nú hljóðar hún svona:

Góður veiðitúr hvílir á einni meginstoð: Veiðifélögunum.