Þann 27. júlí síðastliðinn hafði Böðvar Pétursson samband við Bergþóru Kristjánsdóttur, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun í Mývatnssveit, og sagðist hafa orðið var við einkennilega fugla við Mývatn. Bergþóra fór á vettvang og taldi að hér væri um að ræða silkitoppur með unga. Hún lét starfsmann Náttúrustofunnar vita sem að kannaði málið tveim dögum síðar.

Fuglarnir voru enn á sama stað og reyndist grunur Bergþóru réttur, þarna voru á ferðinni fjórir silkitoppuungar sem voru mataðir af foreldrum þeirra með reglulegu millibili. Hnoðrarnir, sem virtust nýfleygir, sátu þétt saman meðan þeir biðu eftir matargjöfum. Fullorðnu fuglarnir virtust helst koma með misþroskuð krækiber en einnig hryggleysingja af og til (þ.á.m. flugur). Það var athyglisvert að sjá að toppurnar báru ekki æti í ungana eins og þrösturinn heldur virtust fylla hálsinn og „æla“ ofan í ungana. Þetta er fyrsta varptilfelli silkitoppu á Íslandi, og væntanlega í NV-verðri Evrópu. Eftir óvenjumikinn fjölda silkitoppa síðastliðinn vetur virðast fáeinir fuglar hafa ákveðið að halda hér til sumarlangt, sem er mjög óvenjulegt, en frá loka maí hefur frést af fuglum á nokkrum stöðum á norðanverðu landinu, allt austur á Egilsstaði. Aðeins við Mývatn og á Fellabæ/Egilsstöðum hafa fuglar sést öðru hverju í sumar en annars staðar er líklega um að ræða einstök tilfelli eftir því sem best er vitað.Silkitoppur eru miklar berjaætur sem verpa í norðanverðri Skandinavíu og fylgja barrskógabeltinu austur um Rússland og í norðanverðri Norður Ameríku. Þegar vart verður við fæðuskort í heimkynnum þeirra leggjast þær á flakk og sjást þá í mismiklu magni í vestanverðri Evrópu, m.a. hér á landi. Í þeim árum sem þær berast hingað sjást þær vanalega frá miðjum október fram í apríl.