Grafönd er grannvaxin og hálslöng votlendisönd og oftast auðgreind á löguninni. Í fjarlægð virðist steggur grár með hvíta bringu og dökkt höfuð. Höfuðið er kaffibrúnt, sem og kverk og afturháls. Framháls, bringa og kviður eru hvít og hvítar rákir á hálshliðum teygja sig upp til höfuðsins. Hann er gráyrjóttur á búkinn. Undirgumpur er svartur og stél hvítt og svart með löngum svörtum miðfjöðrum, axlafjaðrir langar og svartar með hvítum jöðrum. Vængspegill er grængljáandi með brúnan framjaðar og hvítan afturjaðar. Í felubúningi er steggur svipaður kollu en grárri að ofan. Kollan er svipuð öðrum buslandakollum en ljósari og grárri, grennri, með lengri háls og oddhvasst stél. Kviður er hvítur og vængspeglar eins og á steggi, en brúnni og dauflitari. 

Flug grafandar er kraftmikið með tíðum vængjatökum, vængir grannir og oddhvassir. Hún flýtur vel á vatni og á auðvelt með gang. Sést venjulega í pörum eða litlum hópum, oft með öðrum buslöndum. Er fremur stygg, hegðar sér líkar rauðhöfða- en stokkönd. Kollurnar gefa frá sér djúpt garg en yfirleitt er fuglinn þögull.

Fæða og fæðuhættir: 
Fjölbreytt úrval jurtafæðu, etur fræ, jarðstöngla og rótarhnýði. Tekur jafnframt dýrafæðu í einhverjum mæli og er hún aðalfæða unganna. Hálfkafar eða stingur haus og hálsi undir yfirborð.


Mynd: María Gunnarsdóttir
Fræðiheiti: Anas acuta
Fuglavefurinn.is