Fréttir

Boltalaxar í Heiðarvatni

„Já við vorum að koma úr Heiðarvatni í Mýrdal og það gekk ágætlega, veiddum reyndar bara hálfan daginn,“ sagði Kári Jónsson þegar við heyrðum í honum en góð veiði hefur verið í vatninu í sumar og margir fengið flotta fiska.

Bolta laxar voru að stökkva í kringum veiðimennina í Heiðarvatni

„Það var fínt veður og laxar að stökkva um allt vatnið, bolta fiskar innan um og sumir yfir tuttugu. En það var sama hvaða flugur þeim var boðið þeir vildu ekki bíta á.  En ég veiddi tvo sæmilega sjóbirtinga undir lok dags og þeir fengu líf áfram, þetta var bara verulega skemmtilegt,” sagði Kári ennfremur.

Heiðarvatnið hefur verið að gefa flotta fiska í sumar, urriða og sjóbirtinga og einn og einn lax. Sama má segja um Vatnsá, bæði í laxi og silungi.