Fréttir

Laxá í Dölum komin í 650 laxa, Ytri-Rangá með mestu veiðina

Gunnþór Ingólfsson með lax úr Þegjanda sem var 78 sm

„Já við vorum að koma úr Laxá í Dölum og hollið veiddi 22 laxa, enginn læti en kropp bara,“ sagði Gunnþór Ingólfsson sem var að koma úr ánni, en Laxá hefur gefið 650 laxa þetta sumarið sem er heldur minni veiði en á sama tíma í fyrra.

„Það var minni fiskur en oft áður en það voru samt laxar á flestum stöðum, en ég hef veitt í Laxá í Dölum síðan 2015.  En þetta er búið að vera skrítið sumar í veiðinni, maður er búinn að labba mikið við veiðiskapinn þetta sumarið. Hef veitt í Jöklu, Hafralónsá og svo í Dölunum í Laxá það sem af er sumri,“ sagði Gunnþór ennfremur.

Ef við kíkjum aðeins á stöðuna þá er Ytri Rangá efst með 4442 laxa, síðan Eystri Rangá með 3412 laxa og Miðfjarðará með 1474 laxa þessar þrjár efstar.