Fréttir

Grunsamlegir menn í fyrrinótt að leita að ánamöðkum

Skortur á ánamöðkum

Það hefur verið frekar erfitt að fá ánamaðka stóran hluta sumars og er ennþá. Margir nota maðk bæði í silungs- og laxveiði en veiðiám sem leyfa maðk hefur fækkað stórum síðustu árin og má telja á fingrum annarrar handa núorðið. 

Töluvert hefur verið um það í sumar að maðkveiðimenn fari sjálfir og tíni maka og var svoleiðis uppákoma í Hafnarfirði í fyrrinótt. Lögreglan var kölluð til þegar sást til grunsamlegra mannaferða í garði einum um tíuleytið. Lögreglan mætti á staðinn og hafði upp á mönnunum sem voru að tína sér maðka í veiðitúr sem var framundan. Þetta gerðist einnig í Vesturbænum fyrr í sumar þegar lögregla hafði afskipti af grunsamlegum maðkatínslumönnum við iðju sína. 

Það eru talsvert margir sem stunda að finna og selja veiðimönnum maðka og það eru til menn sem rækta þá einnig, eins og Magnús Margeirsson í Þorlákshöfn og við heimsóttum sl. vor.