Dílaskarfur er stór, dökkur og hálslangur sjófugl. Fullorðnir fuglar eru svartir, í varpbúningi (síðla vetrar og á vorin) er hann með hvíta kverk og vanga, oft hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, minna á pönkara. Stór hvítur díll er á hvoru læri og bera þeir nafn sitt af honum. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Kynin eru eins. 

Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt er að greina skarfana að á færi, en dílaskarfurinn er miklu stærri, með þykkari gogg og flatara enni . Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp. 

Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Er styggur og var um sig á varpstöðvum. Félagslyndur.

Fæða og fæðuhættir: 
Dílaskarfur er fiskiæta, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Hann kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.


Mynd: María Gunnarsdóttir
Fræðiheiti: Phalacrocorax carbo
Fuglavefurinn.is