Fréttir

Ískalt við veiðiskapinn

Veiðimenn renna fyrir fiska í dag við Geirlandsá og það er kalt.

Það má segja að það sé ansi kalt við veiðiskapinn þessa dagana, hitastigið rétt fyrir ofan frostmarkið víða og jafnvel snjómugga á köflum. Þannig var það við Geirlandsá  í dag þar sem vaskir veiðimenn mættu og einn úr þeirra hópi var Hilmar Jónasson. Og við skulum aðeins heyra hvernig gekk. „Það er frekar kalt en við höfum verið að finna flotta fiska hérna í Geirlandsánni,“ sagði Hilmar og bætti við, „við erum búnir að fá 24 fiska og sá stærsti var 92 sentimetrar. Vorum í gær á neðri hluta árinnar en notuðum daginn í dag til að rölta um á efri hluta árinnar og skoða stöðuna,“ sagði Hilmar ennfremur.
Veiðimenn hafa verið að setja í fiska fyrir austan en kannski ekki mikil veiði, enda mætti hlýna meira og þá gæti fiskurinn tekið betur en í þessum ísakulda. Það er ekki mikil hlýnun í veðurkortunum næstu dagana.

Mynd: Mynd. Hilmar Jónasson með fisk úr Geirlandsá.