Stóra Laxá

Finnur Björn Harðarson er fjárfestir, fyrrverandi útgerðarmaður í Kanada og á Grænlandi og leigutaki Stóru-Laxár í Hreppum. Hann er ástríðufullur laxveiðiáhugamaður og er ekki hrifinn af aðgerðarleysi stjórnvalda hvað varðar laxeldi í opnum sjókvíum. Finnur og félagar hans í Bergsnös, sem heldur utan um alla þræði í ánni, hafa lyft grettistaki undanfarin tvö sumur á svæðinu

Finnur Björn í Stóru

Við höfum byggt nýtt og glæsilegt veiðihús, breytt allri umgengni við ána, búið til skilyrði svo að laxastofninn geti vaxið og dafnað. Bergsnös hefur einnig lagað aðgengið með vegaslóðagerð sem er heljarinnar verkefni enda er áin ein sú lengsta á landinu og telur yfir 90 kílómetra. Félagið ætlar sér stóra hluti á næstu árum, vilja setja upp fleiri seiðagarða og planta birkitrjám en þegar hafa 80.000 slík tré verið gróðursett meðfram lækjum undir forystu Finns og félaga.
„Laxveiði er og hefur alltaf verið áhugamál mitt og Stóra-Laxá hefur alltaf verið mín uppáhaldsá,“ segir Finnur.

Fyrir um það bil átta árum sá Finnur draumajörðina á sölu sem liggur að ánni og festi kaup á henni ásamt fjölskyldu sinni og byggði þar annað heimili. „Og með þetta útsýni í bakgarðinum yfir ána var eiginlega ekki annað hægt en að gera að minnsta kosti tilraun til að reyna að fá landeigendur í lið með mér og okkur til að byggja þarna upp flottustu á á Íslandi. Því að Stóra–Laxá hefur alla burði til að verða sú,“ segir Finnur.
Og mikið hefur áunnist. Finnur og félagar gerðu tíu ára leigusamning um að taka við rekstri Stóru–Laxár og uppbyggingin hófst um leið. „Þetta er svona fjölskyldu- og vinabisness. Maður er ekki í þessu fyrir peninga. Við erum nokkrir félagar – um það bil tíu – sem tókum okkur saman um að gera leigusamninginn og nefndum félagið Bergsnös eftir einum frægasta veiðistað árinnar. Góð vinkona okkar fjölskyldunnar sér um að selja veiðileyfin, eldri dóttir mín er kokkurinn, sonur minn er leiðsögumaður í ánni og vinkonur okkar sáu um að hanna veiðihúsið að innan. Ég er svona áhugaarkítekt og teiknaði veiðihúsið með dyggri aðstoð Sigurðar Unnars og Vilborgar vina okkar á næsta bæ. Ég reyni að hafa umsjón með framkvæmdum og vegaslóðagerð. Við reynum að gera þetta öll saman þannig verður þetta oft rosalega skemmtilegt – þótt stundum reyni á þolrifin þegar fólk ætlar sér stóra hluti á skömmum tíma,“ segir Finnur og hlær.

Stórhuga áform og sem mest gert strax

Þegar við undirritun leigusamnings varð kunnugum ljóst að miklar breytingar yrðu gerðar á öllu fyrirkomulagi við veiði í ánni líkt og áður segir. H..enni var nú skipt upp í tvo hluta í stað þriggja áður svo að nú er veitt á efra og neðra svæði árinnar. Skilyrði var sett um að hafa leiðsögumenn með í för við veiðar og net voru keypt upp, meðal annars í Ölfusá og Hvítá.
Grettistaki var lyft í því skyni að auka aðgengi að ánni og bæta vegslóða þar sem þurfti með. Nýtt og glæsilegt veiðihús reis síðan á neðra svæðinu, fyrir neðan gamla veiðihúsið sem áður fylgdi svæði eitt og tvö. Húsinu á neðra svæðinu fylgir nú einnig gamla svæði þrjú.

Viðtal við Finn Björn Harðarson birtist í Sportveiðiblaðinu 3. tbl 2023