Fréttir

77 laxar veiddust síðasta sumar í Breiðdalsá

Nýr leigutaki með Breiðdalsá

Ein fallegasta laxveiðiá landsins Breiðdalsá í Breiðdal hefur skipt um leigutaka og er mikið verk fyrir nýja leigutaka að koma ánni á kortið aftur eftir slælega útkomu á síðasta veiðiári. Óhætt að segja að áin sé með þeim fallegri en það dugar bara ekki til þegar hún er fisklaus á stórum svæðum því aðeins veiddust 77 laxar í ánni síðasta sumar. Morgunblaðið greindi frá því gær að Peter Rippin, eigandi Ripp Sporting, hafi undirritað tíu ára leigusamning við veiðifélag Breiðdalsár en Strengir munu vera með ána í sumar, eftir það tekur Peter Rippin við henni. Besta veiðin í Breiðdalsá var árið 2011 en þá gaf hún 1430 laxa sem þótti mjög gott og lyfti ánni á háan stall í veiðiheiminum. Síðan eru liðin mörg ár. Verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst með þetta nýja ævintýri í Breiðdalnum, en flestir firðir á svæðinu eru orðnir fullir af fiskeldiskerjum sem flýtir ekki fyrir verkefninu.

Mynd. Það er fallegt við Breiðdalsá, Efri og Neðri Beljandi.