BleikjaFréttir

Veiðin stendur ekki undir væntingum – veiðimenn farnir að krefjast lægra veiðileyfaverðs

Minni laxveiði á milli ára

„Þetta eru bara hamfarir og ekkert annað og ef sumarið verður svona eins og það lítur út fyrir þá þurfa leigutakar aðeins að fara að hugsa sinn gang og taka þessar innihaldslausu hækkanir síðustu ára til baka,“ segir Boggi Tona veiðimaður um veiðistöðuna í laxveiðinni. Fleiri veiðimenn hafa tekið undir með honum sem er skiljanlegt þar sem veiðin er langt frá því að vera góð. Margir eru að tala um slappa laxveiði og í nokkrum góðum veiðiám eru veiðileyfi til sölu á næstunni.
Sporðaköst (Mbl) tala um „niðurgang í laxveiði“ og Vötn og veiði segja veiðitölur vikunnar „ekki upp á marga fiska“.  Mikið vantar uppá í laxveiðinni og árnar víða orðnar vatnslitlar eftir þurrka síðustu vikna, það þyrfti stórrigningar ef vel ætti að vera.

En kíkjum aðeins á síðustu vikutölur frá veiðiánum, t.d. hefur Norðurá í Borgarfirði gefið 555 laxa en var með 711 laxa á sama tíma fyrir ári, Þverá með 540 laxa á móti 731 og Urriðafoss með 510 laxa, voru 701 á sama tíma fyrir ári.