Laxveiðiár

Húsið við Laxfoss við Norðurá

Veiðitíminn er byrjaður við Norðurá í Borgarfirði vorið 2021. Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra tók fyrstu köstin þetta árið en veðurfarið gat verið betra. Karlar og konur létu það ekki hafa áhrif á sig.

Nordura

„Það er fátt betra en stangveiði og þetta er meiriháttar“, segir Guðni sem er að veiða fyrsta flugulaxinn sinn, netaveiðisonurinn fyrir austan fjall. Guðni heldur áfram að kasta flugunni, hann vill fleiri laxa eins og sannir Framsóknarmenn sem vilja alltaf meira, fylgi.
Við yfirgefum árbakkann en förum allt ekki langt. Við fallega fossinn stendur reisulegur bústaður sem á sér langa og skrautlega sögu. Við ætlum að taka stefnuna þangað en þar hittum við fyrir Sigrúnu Ásu Sturludóttur sem tekur okkur fagnandi. Hún fer strax að sýna okkur Gamla veiðihúsið við Laxfoss, þar sem rætur hennar eru sterkar og traustar. „Elsti hluti veiðihússins við Laxfoss var reistur árið 1907“, segir Sigrún og heldur áfram, „af Friðriki Jónssyni stórkaupmanni en hann var annar Sturlubræðra, en þeir voru meðal helstu kaupmanna í Reykjavík fyrir og eftir aldamótin 1900, þeir Friðrik og Sturla“.

Sturlubræður voru miklir athafnarmenn. Þeir hófu verslun í Reykjavík þegar Danir drógu saman seglin. Sturlubræður ráku verslun í Reykjavík, Verslun Sturlu Jónssonar sem í daglegu tali var kölluð Sturlubúð, fyrst staðsett í Aðalstræti 14, í einu af syðstu húsum Innréttinganna. Þarna hóf Sturla Jónsson fyrst að versla um 1883 er hann var rúmlega tvítugur að aldri. Var um krambúð að ræða en í henni mátti fá ýmsar nauðþurftir, klæðnað og margs konar áhöld jafnt sem matvöru.

Sturlubræður ráku einnig stórt kúabú á Brautarholti á Kjalarnesi frá 1900 til 1908. Mjólkin var daglega send sjóleiðis til Reykjavíkur. Bústjóri hjá þeim á Brautarholti var Jón Jónatansson, þá nýútskrifaður búfræðingur frá Noregi, og hélt hann þar námskeið í plægingum 1907. Jón Pétursson, faðir þeir bræðra, átti þá Brautarholtið og hafi reist þar kirkju. Þeir stunduðu stangaveiði í Elliðaánum og áttu þar veiðikofa. Móðir þeirra átti jörðina Laxfoss en jörðin hafði komist í eigu fjölskyldunnar á dögum langa- langa-langaömmu og afa Sigrúnar Ásu en þau voru fædd um 1770, presthjón í Stafholti. Friðrik afi keypti síðan fleiri jarðir meðfram ánni og átti um tíma veiðina beggja vegna árinnar frá Hreðavatni niður undir Munaðarnes.

Við erum einmitt stödd á Laxfossi á þessum degi. „Já, þetta er sérstakur heimur þarna við Laxfoss, allt er svo stílhreint og vel gert. Borin er virðing fyrir hinu gamla þó að húsið sé búið nútímaþægindum. Húsið var reist á jörð sveitabæjarins Laxfoss í Stafholtstungum en gamli bærinn stendur þó fjær ánni,“ segir Sigrún og heldur áfram að leiða okkur um svæðið og fróðleikurinn er á hverju strái. „Já ,þær hafa vafið upp á sig þessar framkvæmdir hérna við Laxfoss. Ég og Þór maðurinn minn ætluðum í nauðsynlegt viðhald sem vatt fljótt upp á sig,“ segir Sigrún enn fremur.

Svæðið er stórkostlegt og ljósmyndarinn er löngu horfinn að taka myndir á svæðinu. Við Sigrún kíkjum yfir að Laxfossi þar sem Guðni er enn að renna fyrir lax og hún segir mér það sem ég vissi ekki.

„Ég hef aldrei veitt lax í Norðurá en ég hef margoft reynt, en það kemur,“ segir Sigrún og ég er verulega hissa. Ljósmyndarinn er mættur aftur og við göngum einn hring um svæðið sem er stórbrotið en er vert að skoða vel og fræðast um söguna sem er merkileg.

LaxfossA

Stórhuga menn byggðu þetta svæði upp en allt byggingarefni var ferjað á skipi til Borgarness frá Reykjavík og síðan flutt að Laxfossi. Þetta voru menn sem framkvæmdu hlutina. Áður en húsið var byggt hafði Friðrik stundað laxveiði í Norðurá og þá hann bjó í tjaldi.

Tíminn stendur í stað hérna, hlutirnir inni tengjast húsunum á svæðinu sterkum böndum og þar er margt að skoða. Sagan er sterk og við höfum drukkið hana í okkur. Stefna er tekið á heimferð.

Heimild; NÁTTURUBARN eftir Sturlu Friðriksson (birt í Sportveiðiblaðinu 3. tbl 2021)