Þrengt að fuglalífi við Bessastaðatjörn – ályktun send

Vegna ábendinga fóru fulltrúar frá Fuglavernd og Landvernd að skoða svæði á Norðurnesi á Álftanesi þar sem til stendur að byggja  golfvöll. Hann mun þrengja að fuglalífi og þeir sem þekkja til sjá væntanlega fyrir sér margæsir vappandi um völlinn á meðal golfspilara.

Landvernd og Fuglavernd hafa kynnt sér drög að deiliskipulagi á Norðurnesi. Uppdrátturinn sýnir að áformað er að fara með golfvöllinn alveg niður að bökkum Bessastaðatjarnar. Þá er svæðið á milli tveggja læna sem ganga vestur úr Tjörninni notað sem „græna (green)“. Gangi þessi áform eftir mun þrengja mjög að fuglalífi við Bessastaðatjörn sem skýrslur um fuglalíf sýna að er bæði mikið og vermætt. Svæðið eins og það er í dag hefur einnig mikið upplifunargildi fyrir bæði íbúa og gesti. Hætt er við að þetta spillist ef farið verður að þessum tillögum.