Kjóinn er mun minni en ættingi hans, skúmurinn. Langar oddhvassar miðfjaðrir sem skaga 5–10 cm aftur úr stélinu eru einkennandi. Tvö litarafbrigði eru af kjóa, dökkt og ljóst. Dökkur kjói er að mestu móbrúnn, með svartleita kollhettu, vængi og stél. Ystu handflugfjaðrir eru með hvítum stöfum sem mynda hvítar skellur utarlega á væng og eru meira áberandi á undirvæng. Ljós eða skjóttur kjói er ljós á vöngum, hnakka, bringu og kviði, dökk kollhetta áberandi, oft með dökku bringubelti. Vængir og stél eru eins og á dökkum fugli. Dökkir kjóar eru algengari, en ljósir kjóar hlutfallslega algengari norðanlands en sunnan. Ungfuglar eru mismunandi, venjulega brúnflikróttir, með stuttar miðfjaðrir stéls. Kynin eru eins. 
Vængir kjóans eru langir og hann er rennilegur og flugfimur fugl sem eltir oft uppi aðra fugla og neyðir þá til að sleppa æti sínu.

Fæða og fæðuhættir: 
Kjóinn eltir uppi aðra fugla, einkum kríu, ritu, lunda og fýl, þreytir þá og neyðir til að sleppa eða æla æti sínu, sem oft er sandsíli og loðna. Er hann þá snöggur að grípa fenginn á lofti. Lifir einnig á skordýrum, fuglsungum og eggjum.

Fræðiheiti: Stercorarius parasiticus
Fróðleikur af Fuglavefnum