FréttirUmræðan

Sjókvíaeldi beygt að hagsmunum norskra eldisfyrirtækja á kostnað íslenskrar náttúru

Sjókví í Berufirði

FRÉTTATILKYNNING FRÁ LANDSSAMBANDI VEIÐIFÉLAGA
Landssamband veiðifélaga fagnar útkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi þótt niðurstaðan sé sláandi en ekki óvænt. Landssambandið hefur lengi bent á fjölmargar brotalamir í umgjörð í kringum eldið og þær miklu hættur sem því eru samfara fyrir villta laxastofna. Oftast án þess að á sé hlustað.

Landssambandið hefur bent á hvernig stjórnvöld drógu úr verndargildi áhættumats erfðablöndunar með því að tryggja að allar framfarir í eldi myndi leiða til aukinnar framleiðslu en ekki aukinnar verndar. Nú hefur komið í ljós að Hafrannsóknastofnun hafi þess utan aukið magn frjórra laxa í áhættumatinu byggt á röngum gögnum frá eldisfyrirtækjunum og er slíkt forkastanlegt.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stór hluti eldisaukningar í nýja áhættumatinu hafi verið vegna þess að Hafrannsóknastofnun miðaði við lífmassa en ekki hámarksframleiðslu eins og gert var áður. Svo virðist sem Hafrannsóknastofnun hafi notað stuðul frá eldisfyrirtækjunum sjálfum þannig það sem áður voru 800 tonn af hámarksframleiðslu urðu að 1.000 tonnum af lífmassa. Hafrannsóknastofnun hafi sagt að stuðullinn væri byggður á reynslu úr sjókvíaeldi hér við land en Ríkisendurskoðun segir hins vegar að reynslan sýni í raun að stuðullinn hefði átt að vera nær einum á móti einum sem hefði ekki haft þessa miklu aukningu í för með sér. Ríkisendurskoðun telur áhyggjuefni að Hafrannsóknastofnun hafi ekki getað rökstutt betur val á þessum stuðli sem ræður miklu um leyfilegt eldismagn.

Það alvarlega við þessa athugasemd Ríkisendurskoðunar er að magnaukningin sem ákveðin var 35.500 tonn virðist að mestu vera vegna rangra upplýsinga sem eldisfyrirtækin hafa gefið Hafrannsóknastofnun. Vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar í þessu máli fá falleinkunn og eru því miður hluti af viðvarandi skeytingarleysi stofnunarinnar gagnvart villtum laxastofnum. Landssamband veiðifélaga hefur í meira en tvö ár vitað af gögnum í fórum Hafrannsóknastofnunar sem benda til erfðablöndunar í villtum laxastofnum frá fyrri eldisbylgjum. Þessi gögn hafa ekki fengist opinberlega birt þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Landssambandsins.

Taka ber fram að þeir þættir sem fjallað er um hér að ofan snúa aðeins að einni athugasemd Ríkisendurskoðunar úr skýrslunni sem taldi 23 athugasemdir eða fleiri en í nokkurri úttekt stofnunarinnar.

Þó Landssamband veiðifélaga fagni frumkvæði matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, við að fara ofan í saumana á umgjörð sjókvíaeldis svíður engu að síður að sjá hversu algjörlega vanhæf stjórnvöld hafa verið í málaflokknum. Öll umgjörðin hefur meira og minna verið beygð að hagsmunum norskra eldisfyrirtækja á kostnað íslenskrar náttúru og skattgreiðenda.

Það þarf ekki fleiri orð.

Nánari upplýsingar veita Jón Helgi Björnsson, formaður stjórnar Landssambands veiðifélaga í síma 893-3778 og Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, í síma 665-8865 eða tölvupósti á gunnar@angling.is