Frá áramótum hefur verið bannað að veiða grágæsir hér á landi og óvíst hvenær veiðar á tegundinni verða leyfðar að nýju. Bændasamtökin hafa óskað eftir að stjórnvöld falli frá banninu fyrir haustið, svo bændur geti varið ræktunarlönd sín fyrir ágangi gæsarinnar.

Veiðar á grágæsum hafa almennt verið leyfðar hérlendis frá 20. ágúst og til 15. mars og hafa bændur margir, þá sérstaklega á austurhluta landsins, nýtt veiðikvótann til þess að fækka gæsum sem sækja á ræktarlönd þeirra. Meginþorri veiðanna hefur verið að hausti, svo veiðibannið hefur ekki haft mikil áhrif enn sem komið er.

Talningar sýna verulega fækkun fugla

Grágæsin var nýlega færð í verndarflokk í alþjóðlegum samningi sem Ísland er aðili að. Samkvæmt talningum hefur fækkað talsvert í grágæsastofninum, eða úr um hundrað þúsund fuglum 2012 í um sextíu þúsund í síðustu talningu. Skotveiðifélag Íslands hefur þó gert athugasemdir við þær mælingar og segir þær hafa verið óáreiðanlegar síðustu ár.