Krían er eini fulltrúi þernuættar hér á landi. Hún er spengilegur og tígulegur fugl, nokkru minni en hettumáfur og mun mjóslegnari og rennilegri. Á sumrin er kría með svarta hettu frá goggrótum og aftur á hnakka. Að öðru leyti er hún blágrá, nema hvít rák er undir kollhettunni og hún er hvít á stéli með svartyddar handflugfjaðrir. Stélið er djúpklofið og vængir langir og hvassyddir. Ungfugl (nýfleygur ungi) er með hvítt enni og bringu, brún- og gráflikrótt bak og yfirvængi, lítið eitt klofið eða sýlt stél. Ársgamlir fuglar (og í vetrarbúningi) eru hvítir á enni, bringu og kviði, frambrún vængja er dökk og jaðarfjaðrir stélsins styttri. Kynin eru eins. 

Krían er afbragðs flugfugl, hún andæfir yfir vatni og steypir sér síðan eldsnöggt niður eftir síli. Hún er þekkt fyrir öflugan lofthernað í varplandi sínu og ver ekki aðeins eigin afkvæmi fyrir ræningjum, heldur njóta aðrir fuglar einnig góðs af að verpa í nágrenni hennar. Mjög félagslynd og á sífelldu iði og amstri.

Fæða og fæðuhættir: 
Sandsíli er aðalfæða kríunnar við sjávarsíðuna, en hornsíli inn til landsins. Hún stingur sér eftir fiskinum á flugi. Fangar einnig seyði hrognkelsis og marhnúts, tekur skordýr, smá krabbadýr og burstaorma.


Fræðiheiti: Sterna paradisaeaFuglavefurinn
Texti: Fuglavefurinn
Mynd María Björg Gunnarsdóttir