Fréttir

Seyðfirðingar gegn sjókvíaeldi

Merki átaksins

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga sem haldinn var 21.-22. apríl lýsti yfir eindregnum stuðningi við báráttu íbúa á Seyðisfirði gegn sjókvíaeldi. Til viðbótar við andstöðu gegn sjókvíaeldi á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða, einkum vegna hættu á erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxastofna, þá var fundurinn einróma í ályktun sinni um að vilji íbúa á Seyðisfirði skuli vera virtur. Landssamband veiðifélaga hefur ákveðið að fylgja ályktuninni eftir með framlagi til söfnunar félagsins VÁ! sem berst gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði og hvetur alla til hins sama.

Ályktun aðalfundar LV er svohljóðandi:

„Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn í Landsveit dagana 21.-22. apríl 2023, styður heilshugar baráttu Seyðfirðinga gegn sjókvíaeldi í firðinum. Ólíðandi er að meirihlutavilji íbúanna skuli virtur að vettugi.“