Fréttir

Víða fín veiði í sæmilegu veðri

Árni Kristinn og Eiríkur veiðimaður framtíðarinnar með flottann fisk úr Leirá, fyrir tveimur dögum

„Við fórum þrír vinir saman í Leirá í fyrradag og urðum alls ekki fyrir vonbrigðum,“ sagði Árni Kristinn Skúlason sem hefur veitt á nokkrum stöðum síðan vorveiðin hófst fyrir alvöru. Fyrsta veiðidaginn fór hann í Ytri Rangá og fékk flottan fisk.

„Veðrið lék við okkur og áin var í flottu vatni. Það leið ekki langur tími þangað til Andri setti í vænan fisk, fiskurinn tók roku og lét mikið fyrir sér hafa þangað til hann sleit tauminn með offorsi. Þetta var fínt veganesi í daginn og við fórum næst í stað 9 þar sem við fengum 2 fiska á stuttum tíma en báðir tóku pheasant tail númer 14. Sprækir og skemmtilegir sjóbirtingar. Andri og Eiríkur ákváðu að kíkja í stað 7 undir lok dag, en þar fengu þeir feðgar tvo fallega sjóbirtinga á stuttum tíma á pheasant númer 14. Já það var mikið líf á svæðinu og er mjög gott útlit fyrir næstu daga,, sagði Árni Kristinn ennfremur.

Geirlandsá er byrjuð að gefa, Tungulækur líka, þar voru Axel  Óskarsson og fleiri og þar veiddist ágætlega. Minnivallalækur er allavega búinn að gefa 12 regnbogasilunga, sem engin veit hvaðan komu.

Mynd. Árni Kristinn og Eiríkur veiðimaður framtíðarinnar með flottann fisk úr Leirá, fyrir tveimur dögum.