Hrafnsönd er meðalstór kafönd og er steggur auðþekktur á litnum. Hann er allur gljásvartur á fiður, nema flugfjaðrir eru gráar og eru handflugfjaðrirnar ljósastar. Ársgamall steggur er svartflikróttur á bringu, síðum og að ofan. Kollan er dökkmóbrún, með áberandi ljósari vanga og kverk, svartbrúnan koll, hnakka og afturháls og ljósari kvið. Vængir eru svipaðir og á steggi. Ungfuglar eru líkir kollu, en ljósari.  

Hrafnsönd er sterklega vaxin, fremur stygg, með fleyglaga stél og hnöttótt höfuð. Flugið er þróttmikið og flöktandi með hröðum vængjatökum sem mynda flautandi hljóð. Hún er létt á sundi og sperrir þá oft stélið og hálsinn. Fimur kafari en léleg til gangs. Félagslyndur fugl.

Fæða og fæðuhættir: 
Dýraæta eins og aðrar kafendur, sækir mest í krabbadýr og mýlirfur á ferskvatni, en einnig í grænþörunga. Á sjó lifir hún á marflóm, kræklingi og jafnvel smáfiski.

Fræðiheiti: Melanitta nigra
Mynd: María Gunnarsdóttir
Texti:Fuglavefnum