Það eru ekki miklar rigningar þessa dagana /Mynd María Gunnarsdóttir

„Við ætluðum að fara vestur í Dali en sleppum því núna, það er allt að þorna upp. Fréttum af veiðimönnum í ánni sem við ætlum til og þeir fengu þrjá laxa, allur fiskur er út í sjónum. Það var smá von að þetta færi að breytast en lítið er um rigningaspá næstu tíu daga,“ sagði veiðimaður sem ætlaði á veiðislóðir næstu helgi en rigningin sem átti að koma fimmtudag og föstudag, er orðin að smáskúrum.

Veðurfræðingar segja þetta orðið fordæmalaust og vonir veiðimanna dvína með degi hverjum. Veiðimaður sem var í Leirvogsá sagði mikið af fiski en hann væri dýrvitlaus þegar ætti að renna á þá. Í einum hylnum voru 30 laxar en það var eins og það komið hefði sprengja í ána þegar fluga númer 16 lenti á hylnum.

Jú auðvitað eru ljósir punktar það rigndi upp í efstu dölum við Kjarrá í fyrradag og það hleypti strax lífi í veiðina þar, 35 laxar komu á einum degi. Það þarf að gerast víða, slatta af rigningu og mjög flótlega.