Fréttir

Mikið af laxi í Leirvogsá en erfiðar aðstæður

Karl Óskarsson í gær með fyrsta hnúðlaxinn sem hann veiðir í Leirvogsá

„Ég hef aldrei fengið hnúðlax áður en veiddi einn slíkan í Leirvogsá í gærdag, hrygnu og hún tók ekki mikið í,“ sagði Karl Óskarsson sem var við veiðar í vatnslítilli Leirvogsá, en þurrkar viku eftir viku hafa mikil áhrif á vatnsmagnið í ánum.

„En það er mikið af fiski í Leirvogsá víða, en aðstæður eru erfiðar. Við fengum tvo laxa á stöngina og hnúðlaxinn, fiskurinn er svakalega tregur í þessu vatnsleysi,“ sagði Karl enn fremur.

Leirvogsá hefur gefið 220 laxa í sumar og þegar fer að rigna verður veisla eins og víða í ánum.

Töluvert mikið er af fiski í mörgum ám og rigningar eru í kortunum á næstunni.

Kíkjum aðeins á veiðitölur; Ytri Rangá er lang efst með 1433 laxa, síðan Eystri Rangá með 1200 laxa, Þverá í Borgarfirði með 833 laxa, Norðurá í Borgarfirði með 720 laxa og svo Selá í Vopnafirði með 700 laxa.