Einar Hallur Sigurgeirsson með fyrsta silunginn sinn, næst verður það lax. /Mynd María Gunnarsdóttir

„Fiskurinn tók sæmilega í og það var gaman að landa honum í hyl númer 7,“ sagði Einar Hallur Sigurgeirsson sem var við veiðar í Efri Flókadalsá í gærdag, en áin hefur gefið 300 bleikjur. Lítið hefur rignt í Fljótunum síðustu fimm til sex vikurnar.

„Jú  þetta er fyrsti fiskurinn sem ég veiði og nú er að reyna að fá lax í sumar, en hann var aðeins búinn að narta áður,“ sagði Einar Hallur enn fremur.

Efri Flókadalsá hefur gefið 300 bleikjur og víða má finna bleikjur í ánni, þær eru tregar í þessum þurrki viku eftir viku. En boltableikjur eru á nokkrum stöðum eins og í veiðistað númer 15, þar eru bleikjur þær stærstu í kringum 5 pund. En  þær hafa lítinn áhuga að taka agn veiðimanna, sá staður hefur gefið mest í ánni í sumar. Þegar fer loksins að rigna, getur orðið fjör, hvenær sem það nú verður.

Fljótaá í Fljótum hefur verið að gefa laxa og bleikjur í sumar eins og Neðri Flókadalsá.