Fréttir

Hamfarir, hnúðlax að mæta og laxar að drepast

Hnúðlax kominn á land fyrir skömmu

Staðan við laxveiðiárnar er allt annað en góð víða þessa dagana, vatnsleysi og hnúðlaxinn að mæta í hverja veiðiána af annarri. Ljós í myrkinu er að um næstu helgi er spáð rigningu, en það var líka spáð um síðustu helgi, en varla kom dropi úr lofti.

„Við fengum ábendingu frá veiðimönnum sem veiddu hnúðlax í hyl og fóru stjórnarmenn í hylinn og náðu nokkrum fiskum,“ sagði Sæmundur Kristjánsson í veiðifélagi Hvolsár og Staðarhólsár í Dölum, þar sem hann var mættur. 

Þetta sama gerðist í Haukadalsá í Dölum og þar átti að draga á einhverja hylji en hnúðlaxinn var mættur þar. Svona má lengi telja hann er kominn víða og hefur hann sést við árósa, vatnið er lítið og þess vegna hefur fiskurinn haldið sig ennþá í sjónum. Fyrir austan hafa sést töluvert af þessum ófögnuði við árósana eins og í Eskifjarðará og fiskurinn verður fljótur að koma sér upp árnar um leið og fer að rigna.

Á mbl.is segir frá því að lax sé farinn að drepast í Laxá í Kjós vegna þurrka enda hafi ekkert rignt í 52 daga. „Þetta eru rétt 20 laxar og sjóbirtingar,“ sagði Haraldur Eiríksson við Laxá í Kjós.