Verpir við vötn og tjarnir með silungi, frá sjávarmáli upp í 600 m hæð. Hreiðrið er stór en grunn laut á vatnsbakka eða í litlum hólma og myndast vel troðin slóð milli hreiðurs og vatns. Ungarnir fara á vatn um leið og þeir verða þurrir. Foreldrarnir fæða þá þangað til þeir geta farið að veiða sjálfir. Himbrimi er mjög heimaríkur og líður ekki önnur himbrimahreiður nærri sínu. Það er aðeins á stærstu vötnum, sem finna má fleira en eitt par. Á Þingvallavatni eru oftast fjögur til fimm pör og eitt til tvö á Úlfljótsvatni. Dvelur á veturna við strendur og geldfugl er aðallega á sjó á sumrin.


Mynd: María Gunnarsdóttir
Fuglavefurinn.is