Fréttir

Flottir fiskar á Vatnasvæði Lýsu

Harpa Hlín Þórðarsdóttir á Vatnasvæði Lýsu

„Við skruppum aðeins á Vatnasvæði Lýsu á sunnudag síðasta og fengum átta flottar bleikjur,“ sagði Harpa Hlín Þórðardóttir, sem var að veiða á svæðinu með Stefáni Sigurðssyni og dóttur. En veiðin hefur verið góð það sem af er sumri.

„Fengum líka eitthvað svipað magn af smáum urriða en við náum ekki að fara á nema nokkra staði, það væri fjör að vera þarna i tvo daga og veiða. Við fengum fiskana alla á Pheasant tail og Krókinn. Næsta verkefni er síðan að opna Ytri Rangá og svo Laxá í Dölum eftir það, spennandi verkefni bæði,“ sagði Harpa ennfremur.

Harpa Hlín Þórðarsdóttir á Vatnasvæði Lýsu. /Myndir: Stefán

Óskar Örn Gíslason var einnig á Vatnasvæði Lýsu fyrir skömmu og fékk flotta fiska en hann hafði veitt þarna síðan hann var polli og þekkir svæðið vel. Hann ætlar aftur í júli til að ná sér í laxa.