Almennar upplýsingar

Lómurinn er straumlínulagaður og svipaður frænda sínum, himbrimanum, en þó mun minni. Hann er gráleitur, dökkur að ofan en ljós að neðan, með langa, mjóa vængi. Á sumrin er hann grár á höfði og hálshliðum, langröndóttur á afturhálsi og með dumbrauða skellu á framhálsi. Grábrúnn að ofan, bringa, kviður og undirvængir hvít og síðurnar rákóttar. Á veturna er hann hvítur á höfði og hálsi nema með gráan koll og afturháls, grár á baki með hvítum, smágerðum dílum og hvítur að neðan. Ungfugl er svipaður en brúnni og dekkri á baki, höfði og hálsi. 

Lómi svipar að flestu leyti til himbrima og er ófær til gangs eins og hann, ávallt auðgreindur frá honum á uppsveigðum, grönnum gogginum. Á flugi ber hann herðarnar eins og himbrimi og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Lómar sjást stakir eða í litlum hópum.