„Þetta var mín fyrsta rjúpnaferð á þessu tímabili, ákvað að fara í Kaldadalinn sem skartaði sínu fegursta í sólskini, logni og mínus þrem gráðum og smá snjó í lautum og klettum,“ sagði Guðrún Hjaltalín í samtal við veidar.is og bætti við: „Ég var ekki eina rjúpnaskyttan á svæðinu, það voru fleiri en ég sem ætluðu að freista gæfunnar í Kaldadalnum á þessum fallega degi. Ég gekk í rúman klukkutíma en þá var komin allhvöss austan átt og fuglinn orðinn ljónstyggur. Ég og Kolkuós Refur enduðum góðan dag með fjórar rjúpur í pokanum eftir tveggja tíma göngu, fjögur skot fjórar rjúpur. Heyrði skothvelli frá þeim sem voru í kringum mig þannig að ég vona að fleiri hafi átt góðan dag á svæðinu,“ sagði Guðrún ennfremur.

Og það eru margir á rjúpu næstu daga og við verðum með myndir á sunnudag og fréttir, veðurfarið er gott miðað við árstíma og útiveran er góð.