„Það var skemmtilegur dagur hjá okkur Guðna í Leirvogsá,“ sagði María Hrönn Magnúsdóttir og bætti við; „mjög skemmtileg á en fiskarnir smá dyntóttir. Það var frekar blautt á okkur um morguninn og áin vatnsmikil. Við byrjuðum í Móhyl og sáum ekkert líf þar. Við ákvæðum að fara í Kvörnina sem var mjög vatnsmikil og erfið. Fljótlega setti ég í góðan Lax á litla Sunray túbu. Með allskyns tilþrifum og áhættu, þá sérstaklega hjá háfaranum, náðum við að landa honum í öllum þessum vatnsflaum og straum. Það var mikil hamingja þegar hann náðist í háfinn. Hann reyndist 73 cm og fékk því að synda aftur út í hylinn. Guðni setti svo í lax í Húsbreiðu og var laxinn mjög ákveðinn með það að fara ekki í háfinn. Var það stressandi og krefjandi viðureign sem endaði niðri í næsta hyl. Þar var hann sporðtekinn og skellt í háfinn. Við færðum okkur svo í Skúlaskeið og þar setti ég í annan vænan lax sem því miður hafði betur eftir góða baráttu. Fórum svo aftur í Húsbreiðuna og Guðni fer yfir hylinn. En ég hafði verið nýsest á malarhrygg neðst við hylinn þegar fyrri fiskurinn hjá honum tók. Ég hugsaði því jáhá ég ætti kannski að prófa að setjast aftur á malarhrygginn og já… hann var aftur á hjá Guðna. Gaman af svona tilviljunum en sá fór hratt og örugglega í háfinn. Það var nóg af lífi í ánni og var gaman að því að þegar Guðni var með seinni fiskinn á þá var annar lax að stökkva við hliðina á þeim sem var á hjá honum. Við sáum þá töluvert vera að stökkva í þeim hyljum sem við fórum í. Geggjaður dagur með góðar minningar,“ sagði Maria Hrönn að lokum.