Skeiðönd er sérkennileg önd, með sinn mikla gogg, hún er sjaldgæfasta öndin sem verpur reglulega hér á landi. Hún er minni en stokkönd, hálsstutt og fremur kubbsleg. Á steggnum skiptast á dökkir litir og hvítur, hann er með grængljáandi höfuð og háls, hvítur á bringu og teygir hvíti liturinn sig um axlafjaðrir aftur á undirgump. Hann hefur svart bak, gump og svart, ljósjaðrað stél, hvítar og svartar axlafjaðrir og rauðbrúnar síður og kvið. Í felubúningi er hann svipaður kollu, en dekkri að ofan með ljósari reiti á framvængjum. Bæði kyn eru með dökkgrænan spegil og ljósbláan reit á framvæng (vængþökum ) og hvíta rák þar á milli. Kollan er svipuð öðrum buslandakollum, verður best greind á miklum goggi, ljósgulbrúnum eða bleikleitum fjaðrajöðrum og vængmynstri, sem er daufara en á steggi.

Vegna hins stóra goggs virðist skeiðöndin framþung á flugi. Hún er djúpsynd og veit goggurinn niður á sundi. Hún síar æti úr leðju með framrétt höfuð en hálfkafar einnig. Fuglarnir eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum. Er fremur stygg.

Fæða og fæðuhættir: 
Hefur nokkuð aðra fæðuhætti en aðrar buslendur, notar stórgerðan gogginn til að sía fæðu á grunnu vatni eða úr leðju, hálfkafar einnig. Fæðan er sviflæg krabbadýr, lítil skeldýr, skordýr og skordýralirfur, fræ og plöntuleifar.

Fræðiheiti: Anas clypeata
Texti: Fuglavefurinn.is