Grágæs er stærst þeirra gæsa sem verpa eða hafa viðdvöl á Íslandi. Hún er öll grábrún, dökk að ofan og á hálsi, ljós að neðan nema síðurnar eru dökkar, stundum með dökka flekki á bringu og kviði. Er eins og aðrar gráar gæsir með hvítan undirgumpur , undirstél– og yfirstélþökur. Ljósgráir framvængir og gumpur áberandi á flugi. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, ungfugl er með dökka nögl á goggi, en fullorðin með ljósa. Kynin eru eins að lit, en gassinn er sjónarmun stærri. 

Grágæsir halda sig oftast í hópum utan varptíma, fara þá um í oddaflugi og skiptast á um að hafa forystu. Flugið er beint og kraftmikið. Þær eru mest á ferli í dögun og rökkurbyrjun. Pörin halda saman árið um kring og annast uppeldi unga í sameiningu, kvenfuglinn ungar út meðan karlfuglinn stendur á verði.

Fæða og fæðuhættir: 
Grasbítur, fæðan er ýmis grænn gróður; starir og grös yfir sumarið og síðsumars og á haustin taka þær m.a. ber. Etur forðarætur kornsúru, á vorin rífur hún upp gras til að ná í græna plöntuhluta og sækir í korn frá fyrra hausti.

Fræðiheiti: Anser anse

Fengið af fuglavefnum.