Laxveiði á söguslóðum

Laxá í Dölum er meðal allra þekktustu og bestu laxveiðiáa landsins. Áin kemur að hluta úr Laxárvatni á Laxárdalsheiði, og er þar efra lítið vatnsfall. Á leið sinni til sjávar bætast hins vegar í Laxá fjölmargir lækir og þangað sækir áin sína megin uppsprettur. Hún rennur til Hvammsfjarðar sunnan Búðardals, og er laxgengur hluti hennar um 25 kílómetrar að Sólheimafossi. Merktir veiðistaðir eru vel á fjórða tuginn og veitt er með 4-6 dagsstöngum. Glæsilegt veiðihús er staðsett við Þrándargil um miðbik árinnar. Hin seinni ár hefur aðeins verið leyfð fluguveiði í Laxá, enda áin stórskemmtileg fluguveiðiá.

Óhætt er að segja að veiðimenn í Laxá séu umvafnir sögunni á þessum slóðum, því Laxárdalur er vettvangur þekktra atvika úr Íslendingasögunum og bera nafngiftir kennileita þess glöggt merki, hvort sem um er að ræða bæjarstæði eða veiðistaði.  En hefjum nú yfirreið yfir veiðistaði þessarar gjöfulu perlu í Dölunum.

Við hefjum ferðina við ós Laxár þar sem heitir Sjávarfljót (1). Þarna getur gætt flóðs og fjöru, en er fellur út úr Laxárósum getur lax setið eftir í streng sem endar á fallegri breiðu. Hægt er að veiða beggja vegna, en það fer eftir fótafimi veiðimannsins og vatnsmagni hvoru megin betra er að standa. Þarna getur legið mikið af laxi í vatnsleysissumrum og ferðast hann þá gjarnan inn og út með sjávarföllum. Varast ber að veiða staðinn áður en fallið er út, því ef aðstæður eru viðkvæmar má sjá á eftir laxagöngum til sjávar með útfallinu.

Ofan Sjávarfljóts er Matarpollur(2) en í raun er hægt að tala um að Matarpollarnir séu nokkrir, og fer það eftir vatnsmagni. Þarna er flugan gjarnan látin skauta yfir hvítfyssinu og ræðst nýgenginn laxinn á hana með látum. Efsti Matarpollurinn er við endann á malarkambi sem staðsettur er á norðanverðu (Búðardalsmegin) en þeim megin er best að stunda veiðarnar. Þarna þarf að fara mjög varlega, enda veiðimaðurinn í miklu návígi við laxinn. Til að komast að þessum veiðistöðum er ekið yfir brúna og niður slóða að norðanverðu.

Papi
Er sögufrægur veiðistaður og blasir við neðan brúarinnar yfir Laxá. Í Papanum liggur lax allt tímabilið og þarna eru gjarnan stórir laxar. Áin fellur um klettagjá og tekur snarpa beygju til norðurs sem myndar djúpan og stóran hyl. Besta veiðin er við enda hvífryssisins og niður fyrir klettanef í ánni að sunnanverðu. Best er að byrja efst í fryssinu og læðast smá saman niður malarkambinn að sunnanverðu en halda þó góðri fjarlægð frá ánni, því laxinn getur þarna legið við fætur veiðimannsins. Portlandsbragðið fer þarna afar vel, líkt og mjög víða við Laxá.

Brúarstrengur
Var fyrrum mikið eftirlæti maðkveiðimanna. Yfir staðinn liggur í dag göngubrú sem gerir mönnum kleift að sjá laxinn vel undir brúnni og neðan hennar. Þarna er straumur harður og fluga fer ekkert sérstaklega vel nema að hún sé skautuð á yfirborðinu. Ef gott vatn er í ánni getur lax legið með norðurlandinu, í litlum bolla neðan Brúarstrengs. Þar tekur hann eins og koli!

Doddsnef
Afskaplega vanmetinn veiðistaður við bergvegg sem liggur með suðurbakkanum og blasir við þar sem ekið er upp ána að norðanverðu í átt að Kistum. Fæstir nenna að hlaupa þarna niður, en sumir hafa gert það að reglu að fara eina yfirferð yfir hylinn með góðum árangri. Staðurinn líður fyrir það að mun þekktari veiðistaðir eru á svæðinu. Ofan hans er merktur staður “útfallið”(b) en þar er ekki von á laxi nema í allra mestu flóðum.

Neðri Kista
Stórkostlegur veiðistaður. Hún byrjar í hörðum streng efst sem smá saman hægir á sér og hylurinn breikkar. Klettaveggur er á suðurbakka árinnar sem gerir það að verkum að góð birtuskilyrði eru við hylinn og oft sést laxinn úr fjarlægð. Þetta er margslunginn veiðistaður, og rétt að ítreka að veiðimenn byrji efst uppi í harðasta strengnum. Þar eru stór björg í hylnum sem laxinn skýlir sér við. Í Neðri-Kistu er lax allt veiðitímabilið.

Efri Kista
Er að sama skapi þekktur veiðistaður, en um er að ræða lítinn foss sem fellur í djúpan en lítinn hyl. Laxinn liggur undir hvítfryssistaglinu og meðfram klöpp sem skagar út í hylinn að sunnannverðu en veiðimaðurinn stendur á klaparstalli ofan við hylinn að norðanverðu. Þarna er langbest að skauta flugunni, og meðalstór einkrækja með portlandsbragði fer þarna afskaplega vel. Í Efri Kistu er lax allt sumarið, en líkt og á flestum stöðum á þessu svæði er fjörið mest á göngutíma laxins. Þess má geta að á mitt á milli Kistanna er lítill pallur sem nær alltaf geymir lax. Sá er hér ritar byrjar alltaf veiðar í Neðri-Kistu og veiðir sig svo upp ána. Ástæðan er sú að ef sett er í stórlax í þeirri Efri þá má gjarnan elta hann niður ána, og ofan í þá Neðri. Í litlu vatni er þá búið að styggja hyljina að hluta áður en þeir eru veiddir.

Krókur
Margslunginn veiðistaður ofan við Efri Kistu. Þarna beygir áin snarlega og myndar bug í litlum klapparrennum. Mjög misjafnt er eftir vatnsmagni og tíma sumars hvar laxinn liggur. Göngulax getur legið á grunnu vatni á pallinum ofan við klappirnar, hann getur legið í djúpri,þröngri gjá sem liggur með suðurlandinu, og í strengjunum sem falla í hylinn þar sem hann breiðir úr sér. Mitt ráð til veiðimanna er einfaldlega að kasta á allt svæðið, því lax getur legið víða. Gengið er að hylnum frá Efri Kistu, og persónulega veð ég ána til að veiða Krók að sunnanverðu. Rétt er að geta þess að þarna er botninn háll.

Þegjandi
Einn nafntogaðasti veiðistaður landsins. Þarna getur safnast saman gríðarlegt magn af laxi, sér í lagi ef vatn er lítið í Laxá. Dæmi eru um miklar aflahrotur í hylnum, ekki síst ef vatn hækkar snögglega. Ef ekið er niður dalinn er tekinn slóði til hægri skammt neðan Höskudsstaða. Sá slóði leiðir veiðimanninn um svæðið frá Höskuldsstaðastreng að Þegjana, en til þess að komast að þeim síðarnefnda þarf að fara ána á vaði á tveimur stöðum. Þau geta verið varasöm í vatnavöxtum, sér í lagi það neðra. Mjög misjafnt er hvernig veiðimenn veiða Þegjanda. Sumir kjósa að standa bílmeginn og klöngrast að hylnum, en greinarritari kýs að vaða ána neðan Þegjandastrengs og veiða hylinn að norðanverðu. Ef vatn er mikið þá legg ég bílnum við Þegjandakvörn og geng graskambinn að norðanverðu ofan í Þegjanda. Með því móti er hægt að kasta á allan hylinn án þess að styggja laxinn auk þess sem flugan fer mun betur.

Byrjað er efst í skálinni þar sem hvífryssið er og gott að einbeita sér vel að stútnum þar sem fellur í hylinn. Seinna má smá lengja köstin og er komið er niður í miðjan hyl er ágætt að staðsetja sig á nýjan leik með því að vaða út yfir lítinn streng að norðanverðu og veiða niður á brot. Athugið að ef vatn er mikið getur verið lax í þessum litla streng. Við Þegjanda hafa í gegnum tíðina gerst mikil ævintýri, þarna liggur mjög mikill lax allan veiðitímann og fregnir af stórlöxum nokkuð algengar. Á góðum sumrum hefur staðurinn gefið vel á þriðja hundrað laxa.

Þegjandastrengur
Strengur ofan Þegjanda. Þegar vatn er gott má gjarnan fá lax í Þegjandastreng, en lax á það til að færa sig upp úr Þegjanda þegar þannig háttar. Í mjög góðu vatni á haustin má fá fisk í útfalli strengsins þar sem áin fellur í Þegjanda.

Þegjandakvörn
Annálaður stórlaxastaður og yfir þessum hyl hvílir ákveðin dulúð. Hægt er að veiða hylinn beggja vegna en hann er neðan vaðsins á vegaslóðanum til Þegjanda. Betra þykir að veiða hylinn að sunnanverðu og skal byrjað upp í harða streng. Besti tökustaðurinn er þar sem strengurinn hægir á sér og hylurinn dýpkar. Þar eru klapparstrítur í botni sem skaga úr norðurlandinu og í kringum þær liggur laxinn. Í góðu vatni á haustin má fá lax niður allan hylinn og er þá veitt af mölinni sunnan ár.

Mjóhylur
Blasir við af háum malarkambi sem staðsettur er á syðri bakkanum.Þetta getur verið mikil laxakista, sér í lagi fyrripart sumars og á göngutíma. Hylurinn er í raun klappargjá sem opnast í stóra breiðu, og fer það eftir vatnsmagni hvar fiskurinn liggur. Í miklu vatni getur hann legið í stórgrýti niður á breiðunni, en í litlu vatni er hann í klapparhylnumsjálfum, jafnvel undir hvítfryssi efst í hylnum. Best er að nálgast Mjóhyl ofan frá, en þá þarf að ganga niður malarkambinn. Sumir leggja bílnum á eyrinni neðan hans en þá þarf að ganga meðfram hylnum til að hefja veiðar. Slíkt er óráð ef sólfar er og lítið vatn. Þarna liggur lax allt sumarið.

Höskuldsstaðastrengur
Þetta er dýrðlegur veiðistaður. Ekinn er slóðinn til hægri í stað þess að aka til vinstri Þegjandaveginn. Til að nálgast staðinn þarf að ganga grasslóða sem getur verið ákaflega varasamur sökum þess hve þúfóttur og holóttur hann er. Hafa skal það í huga, sér í lagi í vætutíð. “Höskuldur” er þrískiptur, og er sá neðsti langsamlega bestur þeirra. Hann fellur í flúð yfir klapparrana, harður strengur efst á klapparsyllu sem síðar breiðir úr sér í fallegan hyl. Í góðu vatni er laxinn niður á breiðunni en uppi í súrefninu sé vatn lítið. Hægt er að veiða hylinn beggja vegna. Rétt er að vara fólk við klöppunum því þær eru glettilega hálar og eldri veiðimenn geta átt erfitt með að fóta sig við Höskuld.

Hornsteinar eða Sveddastrengur
Staðurinn var búinn til fyrir um þremur áratugum, og fyrsti laxinn var dreginn af hinum landsþekkta veiðimanni Sverri Kristinssyni eða „Svedda Lee”. Sverrir lést vorið 2014 og síðan hefur síðara nafnið unnið sér sess honum til heiðurs, en Sverrir var mikill unnandi Laxár. Um er að ræða stórgrýti sem raðað var yfir ána þar sem vegurinn um Laxárdal liggur næst ánni, og úr varð stórgóður veiðistaður. Í litlu vatni liggur laxinn á milli steinanna og þá er erfitt að eiga við hann, en er vex í ánni færir laxinn sig um set niður á breiðuna neðan grjótanna og þá er hylurinn þrælskemmtilegur. Það rennur yfir steinana á þremur stöðum, og getur lax legið í öllum strengjunum. Oft liggur stórlax við áberandi stórt grjót sem staðsett er norðanmegin við miðju niður á breiðunni. Í góðu vatni á haustin liggur lax langt niður fyrir Hornsteina, sér í lagi í kvöldhúminu.

Leiðólfsstaðakvörn
Fornfrægur veiðistaður. Hylurinn er í raun tvískiptur, annars vegar efri hlutinn þar þar sem vegslóðinn endar, en þar rennur Laxá um stórgrýti. Hins vegar er það lygn breiða neðan þeirra sem oft geymir stóra laxa. Staðurinn er frekar lygn, og það þarf helst gáru eigi að veiða hann. Ef staðurinn er veiddur í logni má oft sjá boðaföllinn er laxinn hverfur úr steinunum niður á breiðuna. Þá er lag að spóla inn og leita á önnur mið.

Nesbakki
Er ekki mikill veiðistaður. Hins vegar eru teikn á lofti að hann gæti verið að taka við sér. Áin hefur verið leidd um háan malarruðning ofan hans og endar við vænlegan grasbakka þar sem finna má dýpi í góðu vatni.

Gíslakvörn
Einn af eftirlætishyljum greinarritara. Þetta er mikill hauststaður en áraskipti á því hve mikill lax leggst í kvörnina. Sumarið 2016 var staðurinn gersamlega teppalagður, mikið um stórlaxa, og 100 og 101 cm hængum landað auk þess sem veiðimenn sögðu sögur af tröllum sem þeir misstu. Í fyrra var þarna sáralítill lax. Í góðu vatni liggur fiskur upp í grjótunum þar sem fellur í Gíslakvörn og getur verið um allt ef svo ber undir. Kvörnin sjálf er svo neðan þeirra, mun lygnari veiðistaður sem helst þarf gáru eða kvöldhúm til að árangur náist.

Kristnipollur
Alla jafna einn af þremur aflahæstu veiðistöðum árinnar ásamt Þegjanda og Höfðafljóti. Þarna er oft á tíðum hrikalegt magn af laxi, og sem dæmi voru á árunum 2015 og 2016 hátt í þúsund laxar í hylnum í ágústmánuði. Seinna árið gaf hann um þrjúhundruð laxa. Áin rennur þarna í “S” og er það helst neðsti hlutinn sem er virkur. Hann afmarkast af sefrönd sem vex út í ána að sunnanverðu, og skal byrjað efst við sefið, ofan við þar sem brýtur á grjóti. Kristnipollur er svo veiddur niður fyrir stórt áberandi grjót sem staðsett er í miðjum hyl gegnt bílastæðinu. Á öllu þessu svæði má fá lax, sér í lagi út af Þrándargilslæknum og í kringum áðurnefnt grjót. Það þarf að vera gára á Kristnapolli til að árangur náist, nú eða mikið vatn í ánni. Hægt er að skemma staðinn ef hann er veiddur í logni og sól, og ef ekki hreyfir vind borgar sig að bíða kvöldhúmsins.

Kotbakki
Er í þarnæstu beygju ofan við Kristnapoll, og rennur með veginum rétt ofan við veiðihúsið. Hann hefur ekki verið góður síðustu ár, en í góðu vatni er þar þó alltaf lax að finna milli grjóta efst í bakkanum, neðan við vaðið sem bændur nota.

Lambastaðakvörn
Er tilbúinn hylur og sama aðferð notuð við gerð hans og í Hornsteinum. Þetta er firnagóður staður og getur lax legið ofan grjótgarðsins í góðu vatni, þó megnið af laxinum sé tekið í kvörninni neðan hans í hylnum sjálfum. Best er að veiða hann bílmegin með því að læðast ofan við grjótin og hraðstrippa smáflugu yfir hylinn. Ef vatn er lítið er gott að lengja tauminn og veiða staðinn þannig að flugulínan sé ofan grjótana, en aðeins taumurinn í hylnum sjálfum. Sumarið 2010 var mjög gott sumar í Laxá og fast að 2000 laxar voru dregnir. Það geysuðu mikilr þurrkar, en það bjargaði málunum að vatni var safnað í Laxárvatni með gamalli vatnsmiðlun. Um miðjan júlí var áin komin í grjót og þá var hleypt á vatni, á sjálfan stórsteymisdaginn 15 júlí. Það var við manninn mælt, upp Laxá gengur torfur af laxi sem hægt var að pikka úr þar til rigndi um haustið. Vatnsforðinn dugði í tvo daga, eða nógu lengi til að laxastóðið náði upp í Lambastaðakvörn, en þá var vatnið á þrotum. Hylurinn var gersamlega teppalagður laxi, líkt og hyljirnir neðan hans og úr honum komu 3-400 laxar það sumarið. Þessi vatnssöfnun hefur verið árleg æ síðan og bjargað miklu í þurrkasumrum. Í stað þess að hafa laxinn í ósnum vikum saman þá er hægt að fá hann í helstu veiðistaðina og veiðimenn geta þá dundað sér þó vatn sé lítið. Það er jú betra að hafa laxinn í ánni. Annars er af sumrinu 2010 að segja að það rigndi loks í september, og gaf síðasti mánuður tímabilsins 1000 laxa.

Svarfhólsgrjót
Magnaður veiðistaður sem hefur ekki verið eðlilegur undanfarin ár.
Annaðhvort leggst lax í grjótin eða ekki. Í mokveiðinni 2016 var ekki bein í hylnum, en í fyrra var lax aftur lagstur í þennan mikla veiðistað og þar á meðal hefðbundnir “Dalamórar”, stórlaxar um 20 pundin. Gott er að hafa gáru á grjótunum,því staðurinn er lygn, og getur lax legið um þau öll. Þó sérstaklega í grjótunum efst og aftur þar sem hár móbakkinn norðan ár lækkar og urð liggur í ána. Ekið er upp dalinn og beygt til vinstri slóða sem liggur að ánni ofan við Svarfhól. Aftur er beyt til vinstri er komið er að ánni, en ef farið er til hægri enda menn við Bakka, Dísubakka og Leirmúla.

Dísubakki og Bakki
Hafa verið drjúgur síðustu ár. Sá fyrrnefndi er hægur staður en grjót eru í ánni ofarlega og í kringum þau liggur laxinn. Efri staðurinn, Bakki, er enn betri veiðistaður og heldur laxi betur er vatn minnkar. Efst eru grjót og neðan þeirra hangir laxinn, oft glettilega nálægt veiðimanninum en veitt er að sunnanverðu. Margir flaska á því að vaða út í ána og styggja laxan við suðurlandið. Í góðu vatni er lax að finna langt niður á grynningar.

Leirmúli
Hylurinn hefur ekki verið að gefa undanfarin ár en ráð að gefa honum gaum. Þar eru hvítar leirklappir í hylnum og ef sópast af þeim í vorflóðum þarf lítið til að staðurinn haldi laxi.

Grafarbakki
Grafarbakki er fornfrægur staður sem má muna sinn fífil fegurri. Staðurinn sem merktur er í dag er nokkru ofar en gamli Grafarbakkinn sem áður fyrr var einn af betri veiðistöðum árinnar og þekkt stórlaxabæli. Hins vegar ættu veiðimenn að hafa auga með hylnum, þar sem fyrirhugaðar eru framkvæmdir við Grafarbakka á vordögum.

Grafarpollur og Drykkjarhyljir
Það eru áraskipti á því hvernig þessir veiðistaðir koma undan vetri, og satt best að segja hafa þeir ekki skilað miklu þrátt fyrir góða veiði í Laxá undanfarin ár. Þarna liggur áin um malareyrar, og kastast utan í grasbakkana. Drykkjarhyljirnir í sumar sem leið voru tveir, djúpir pyttir við grasbakka þar sem stöku laxa var að finna, sér í lagi í þeim neðri. Grafarbakkinn neðan þeirra er lengri strengur og er lax yfirleitt að finna í strengnum þar sem hægist um út af hærri bakkanum. Rétt er að benda mönnum á að svo virðist sem að staður neðan Grafarpolls sé að taka við sér, gamall hylur, Gyllir að nafni.

Höfðafljót
Þetta er mikil laxakista og uppáhald margra unnenda Laxár. Ekki skemmir að þrátt fyrir að hylurinn sé ekki djúpur þá er oft mjög stóra laxa þar að finna eins og víðar í Laxá. Einn slíkur lagðist í Höfðafljót sumarið 2016 og var álitinn um 30 pund. Veiðimaður setti í hann undir hádegi þann 30 ágúst og var laxinn þreyttur í á þriðja tíma uns lak úr honum. Sá er hér ritar var leiðsögumaður og mátti nokkrum sinnum vaða út og berja laxinn frá grjótum með skaptinu á háfnum. Um firnaskepnu var að ræða sem dokaði við í tvo daga eftir viðureignina uns hún hélt á önnur mið og hvarf sjónum veiðimanna. Til að veiða Höfðafljót þarf að aka eða vaða á eyrina norðan ár. Kasta skal efst í strenginn og veiða hann allan, og lengja svo köstin undir sefbakkann fyrir miðjum hyl. Varast skal að vaða of mikið í fljótinu, og helst ekki neitt. Neðarlega í Höfðafljóti er hvít leirklöpp vel ofan við stórt grjót í suðurbakkanum. Þar er hylurinn dýpstur og oft er þar svo mikill lax að umrædd klöpp hverfur sjónum vegna laxatorfu. Veitt er niður fyrir umrætt grjót. Gott er að hafa gáru á Höfðafljóti.

Björnskvörn
Í kvörnina er of lítið farið, og ástæðan er sú að á svæðinu í kring eru seinveiddir og góðir veiðistaðir. Til að komast í kvörnina er farið yfir brúna á Dönustöðum og tekinn slóði á vinstri hönd. Ekið er meðfram öllum grjótunum og gengið síðasta spölinn. Ofan við kvörnina eru tveir litlir frussstallar sem geyma lax í litlu vatni en kvörnin sjálf er góð í meðalvatni eða meira.

Dönustaðagrjót
Grjótin voru áður fyrr leikvöllur maðkveiðimanna, en í dag eru þau paradís þeirra sem beita Portlandsbragði. Þetta er gríðarlangur stórgrýtiskafli þar sem lax getur legið bak við hvern stein. Pallarnir ofan við brúna geta verið lúmskir, en bestu staðirnir eru hylurinn undir brúnni og kvörn um 50 metrum neðan hennar sem þekkja má af stóru bjargi. Varast skal að ana fram á brúnna, því veraldarvanir stórhængar á Dönustöðum læra fljótt af reynslunni. Þarna er ævintýri að setja í stóran lax sem venjulega er nóg af í grjótunum, og óvíða hefur hann betri aðstæður til að sleppa frá veiðimanni. Ef gott vatn er í Dönustaðagrjótum er einfaldlega sett á gárutúba og gengið öll grjótin niður undir Björnskvörn. Svo einfalt er það.

Svartfoss
Þetta er ekki eiginlegur foss, heldur klapparflúð í ánni sem fellur um stokk er breiðir síðan úr sér. Þetta er stórskemmtilegur flugustaður. Í vatnsleysi liggur laxinn að mestu í stokknum og þá þarf að læðast að veiðistaðnum. Við þær aðstæður er bunki af laxi undir hvítfryssinu efst. Ef nægt vatn er fyrir hendi er laxinn hins vegar niður alla breiðuna, og jafnvel á pallinum fyrir neðan. Til að komast að Svartfossi er ekið framhjá Dönustaðaafleggjaranum og farið inn næsta afleggjara til vinstri. Þar er stigi yfir girðinguna og blasir hylurinn við veiðimönnum er komið er þar yfir.

Silungabreiða
Er grunn breiða ofan Svartfoss og er gengið upp í veiðistaðinn á norðurbakkanum og hann veiddur af eyrinni. Vaða þarf ána ofan við bílastæðið því sunnanmegin er hár grasbakki. Það þarf gott vatn til að Silungabreiða sé inni, en ef áin fer í vöxt er hægt að lenda þar í miklum uppgripum. Er þá líkt og hluti af laxinum úr Svartfossi færi sig upp á breiðuna.

Hamarsfljót
Þetta er lítill staður og frekar sjaldan stundaður. Í miklu vatni er þar þó fisk að finna eins og víða á eyrunum á þessu svæði. Sjaldan er þar þó mikið af fiski, en sé hann fyrir hendi er gjarnan um hvídlan tökufisk að ræða.

Helgabakki
Þetta er lítill og nettur veiðistaður og staðsettur á eyri rétt við veginn fram á dal. Þar rennur Laxá til suðurs í átt að veginum og má þar finna þennan vanmetna grunna streng. Það þarf gott vatn í Helgabakka líkt og aðra staði á þessu svæði, en hann hefur verið gjöfull í vatnavöxtum undanarin haust.

Helluhylur
Staðsettur rétt neðan við Sólheimafossgljúfrið. Þetta er með furðulegri hyljum Laxár. Ýmist er hann fullur af fiski eða virkar galtómur. Efst rennur hann með klöpp og þar er mikið dýpi, sem kannski skýrir það af hverju hylurinn er á stundum dæmdur laxlaus. Þar undir klöpinni er nefninlega ákjósanlegur felustaður laxa. Önnur kenning er sú að laxinn flakki einfaldlega mikið á milli Helluhyls og Sólheimafoss. Best er að vaða ána og veiða hylinn að norðanverðu.

Hyljir
Er eitt nafn yfir grunnu klapparrennurnar neðan við Sólheimafosshylinn. Í mestu vatnavöxtum leitar laxinn undan straumþunganum í fossinum og niður í hyljina. Þetta á sér í lagi við ef Laxá fer í mikil flóð og litast, en þá eru þetta gjarnan einu staðirnir í ánni ásamt fossinum sem eru veiðanlegir. Við þær aðstæður er hægt að lenda í uppgripum.

Sólheimafoss
Sennilega eitt mesta stórlaxabæli á vestanverðu landinu. Hlutfall stórlaxa í Laxá í Dölum er nefninlega eitt það allra hæsta á Vesturlandi, og það er í raun ótrúlegt hvað þessi vatnslitla á geymir stóra laxa. Þeir sem ekki hafa séð lax yfir tuttugu pundum með eigin augum þurfa einfaldlega að skríða fram á gljúfrið í Sólheimafossi og málið er dautt! Hylurinn er vandveiddur, og getur í raun verið hættulegur þeim sem ekki eru kunnugir staðháttum. Best er að veiða fossinn af syllu að sunnanverðu og láta smáflugu skoppa í fryssinu. Endrum og sinnum kemur haus upp og ræðst á fluguna. Ef vatn er í meðallagi eða meira þarf að vaða ána ofan fossins og veiða að norðanverðu þar sem hylurinn hægir á sér. En það skal ítrekað við fólk að fara varlega, klappirnar eru sleipar og hylurinn ógnardjúpur.

Eftirmáli
Allt frá því að Veiðifélagið Hreggnasi kom að Laxá í Dölum sumarið 2014 hefur veiði í ánni eingöngu verið stunduð með flugu og strangir kvótar settir á veiðimenn. Þetta var niðurstaðan eftir mjög mögur ár frá sumrinu 2011, og ljóst að sú umgengni sem átt hafði sér stað á Laxárbökkum áratugina á undan var farin að segja verulega til sín. Sumarið 2014 veiddust til að mynda rétt rúmlega 200 laxar í ánni þrátt fyrir ágæta vatnsstöðu, og var það lélegast veiði sem um getur.Til að bjarga hrygningu laxa það sumarið var veiðimönnum uppálagt að sleppa öllum laxi, og tóku flestir vel í það. Fyrir vikið varð hrygning viðunandi það haustið.

Undanfarin ár hafa verið sannkölluð ævintýri við Laxá og veiðin verið á bilinu 1000-1800 laxar. Núverandi leigutaki stundar hrognagröft í hliðarlækjum eftir veiðitíma í samstarfi við Veiðifélag Laxdæla, en engar seiðasleppingar eru í ána og er hún að öllu leiti sjálfbær frá náttúrunar hendi. Hlutfall stórlaxa fer einnig mjög vaxandi og ljóst að þær verndunaraðgerðir sem farið hefur verið í eru farnar að bera ávöxt. Því er rétt að þakka veiðimönnum sérstaklega fyrir sitt innlegg og bætta umgengni. Unnendum Laxár er nefninlega ljóst að það er allra hagur að veiðin í Laxá verði áfram líkt og verið hefur undanfarin þrjú ár.

Texti: Haraldur Eiríksson