HreindýrSkotveiðiVeiðisaga

Hreindýraveiðar – með hjálp að handan

Frásögn sú sem hér fer á eftir er af veiðiferð sem farin var laugardaginn 20. ágúst 2016. Farið var á tveim jeppum frá Egilsstöðum um morguninn, ég var með Gunnari og Valdimari bróðir hans, sem var með leyfi á kú og var að fara í fyrstu veiðiferð sína á hreindýr. Í hinum bílnum voru Anna og Einar Ingvarsbörn en Einar var einnig með fyrsta leyfi sitt á kú en með þeim var kærasti Önnu, bóndasonur úr Húnaþingi sem við nefnum Bjarna. Ingvar komst ekki með í þessa ferð vegna brotinna rifbeina eftir óhapp í hestamennsku. Hann hafði áhyggjur af syninum og var búinn að hringja í mig og spyrja hvort ekki væri allt klárt með undirbúning veiðiferðarinnar.

Við ókum sem leið liggur suður á Öxi og fórum slóðina sem liggur að Líkárvatni og þaðan suður í Hamarsdal. Á leiðinni hittum við veiðimenn sem ætluðu út á Fossárfell og biðu átektar, þar var vitað af stórri hjörð og voru einhverjir komnir þangað út eftir en þar var svarta þoka og lítið sem ekkert skyggni. Okkur sýndist ekki fýsilegt að vera þar í biðröð og kvöddum aðra sem þar voru og héldum áfram suður í Hamarsdal í þeirri von að þar væri bjartara.
Það leið ekki á löngu þar til við sáum í sólarglætur framundan og reyndist allur innanverður Hamarsdalur vera bjartur. Ég var orðinn nokkuð kunnugur þarna eftir veiðiferðir síðustu ára. Við stoppuðum á útsýnisstöðum og ekki leið á löngu þar til ég sá lítinn hóp kúa niðri í Skák sem er innan við Innri Þrándará. Þetta var ekki ákjósanlegur staður en ekki annan að sjá. Við ókum vestur undir Bótarhnjúka og þaðan eftir slóð sem liggur niður að Hamarsá. Þegar hér var komið fórum við að heyra samtöl leiðsögumanna í talstöðinni og fljótlega skildist okkur að einhverjir aðrir hefðu líka séð dýrin í Skákinni. Við héldum okkar striki og fórum suður yfir Hamarsá og upp hlíðina að sunnan. Þegar hér var komið fékk ég kall í talstöðina frá Guðmundi Vali á Lindarbrekku og spurði hann frétta. Ég sagði honum að við værum á leið í dýrin í Skákinni og kvöddumst við síðan.


Við yfirgáfum bílana og héldum á brattann út og upp, vindur var þarna af norðvestri og taldi ég öruggast að vera hátt í hlíðum dalsins. Þegar við vorum komin
vel út fyrir Morsann heyrðum við skothvell neðan úr dalnum og fljótlega sáum við menn ofan við Skákina en dýrin sáum við hvergi. Við vorum svolítið svekkt yfir þessu en mér fannst ótrúlegt að Jónas Bjarki hefði farið í þau en hann hafði verið í sambandi við Guðmund Val í talstöðinni. Við ákváðum að halda utar í dalinn og fljótlega sáum við um 40 dýra hjörð við Ytri Þrándará. Það voru um fjórir kílómetrar í hana en ekki var um annað að ræða. Skömmu síðar sá ég minni hjörð mun nær og ofar í dalnum við Innri Þrándará um 500 metra frá okkur. Nú fór að vænkast okkar hagur. Þegar nær kom urðu þau Anna, Gunnar og Bjarni eftir á góðum útsýnisstað en ég hélt áfram með veiðimennina. Dýrin lágu á lítilli en gróinni eyri utan við ána, lítið holt var milli dýranna og hennar. Við skriðum að holtinu en aðstaðan var ekki góð þar sem mjög stutt var þaðan og í dýrin. Meðan við vorum að skríða upp á holtið varð ég var við að dýrin voru staðin upp og stefndu beint á okkur. Við hörfuðum til baka og smá spöl upp með holtinu en dýrin komu þá enn að okkur þar til þau sáu okkur og voru um 10 metra frá. Þau stukku til baka og hlupu út og upp en með miklu snarræði tókst Einari að fella sína kú rétt áður en þau hurfu fyrir næstu hæð. Ég hljóp nú upp innan við hæðina sem dýrin hurfu bak
við og síðan út yfir hana og horfði um allt en sá ekkert til dýranna. Þð var eins og jörðin hefði gleypt þau. Ég snéri við til félaganna og við gerðum að dýrinu.
Þar sem við vorum ekki með drögu tókum við skrokkinn í tvennt, bárum hann á herðum okkar og héldum til baka til hinna. Þegar þangað var komið kallar Jónas Bjarki í mig og segir að það sé hjörð dýra rétt utan við Morsann og spyr ég hann þá um dýrin í Skákinni og segir hann að hann hafi hætt við að fara í þau þegar hann heyrði af áformum mínum en annar leiðsögumaður hafi farið í þau. Ég þakkaði honum fyrir upplýsingarnar.


Fórum við nú að skanna svæðið fyrir innan okkur í átt að Morsanum og fljótlega sáum við hóp dýra á Melfjalli og hlupu þau beint í áttina að okkur. Einnig sáum við þrjá menn innan við dýrin. Ég segi við Valdimar að gera sig kláran því að dýrin muni koma til okkar og færðum við okkur um 200 metrum neðar fram á klettabrík sem þar var. Þá voru dýrin að koma á hlaupum upp undir klettana og runnu á ferð út og upp neðan við okkur. Við hlupum dálítinn spöl upp og fram á brúnina, þá voru dýrin að hverfa fyrir hæð í um 200 metra fjarlægð. Við lögðum rifflana á brúnina og í því stoppar aftasta kýrin en hin dýrin eru horfin fyrir hæðina. Valdimar kemur skoti á hana og fellur hún við skotið. Þetta reyndist vænt dýr nú var kallað í hin sem biðu og komu þau með dröguna til okkar og bundum við kúnna á hana.
Um 3 km voru í bílana og var nú haldið af stað með allt og sóttist vel að Morsanum.


Áliðið var dags og þokan var búinn að fylla Hamarsdalinn langleiðina inn undir okkur og sótti á, einnig var Hamarsbótin orðin full af þoku fyrir innan okkur og ekki langt í myrkur. Nú var erfiðasti hjallinn eftir, að komast með dýrin upp á kambinn innan við Morsann. Við fórum fyrst með bakpoka, byssur og skrokkhlutana hans Einars en fórum síðan þrír niður og sóttum dröguna með kú Valdimars. Það var erfitt en hafðist samt.

Nú var aðeins um hálfur km í bílana og það niður í móti. Þegar grillti í þá var nánast komið myrkur. Ég stoppa. Einar kemur út úr rökkrinu og stoppar hjá mér en segir síðan og lítur til hliðar: „Amma hefur aldrei sent aðstoðarmenn með okkur fyrr.“ Ég skildi strax hvað hann átti við og leit út í rökkrið en sá ekkert. Þetta var svo ekki rætt meira enda var ég orðin ýmsu vanur með þessu gengi. Það rann þarna upp fyrir mér að allt í þessari veiðiferð hafði gengið betur en hægt var að ætlast til og nú var skýringin komin, við höfðum fengið hjálp að handan. Þess má geta að Einar er guðfræðingur að mennt en þeim er ekki uppálagt að viðurkenna framliðna.
Ég hafði smá áhyggjur af því að fá þokuna ofan í myrkrið á heimleiðinni því að margar villuslóðirnar eru þegar komið er norður fyrir Hamarsdal og eins gott að velja rétta leið. Það vildi samt svo undarlega til að alls staðar var þoka nema þar sem við vorum á ferð og gekk heimferðin því vel.

Björn Ingvarsson