Verpur á lyngheiðum, í móum, kjarri, skóglendi og grónum hraunum frá fjöru til fjalls. Hreiðrið er fóðruð skál, vel falin í runnum eða lyngi. Rjúpur halda til fjalla á haustin en þegar jarðbönn hamla beit leita þær niður á láglendi og halda þá til í hlíðum, kjarri og jafnvel í byggð, kvenfuglar og ungfuglar flakka meira, karrarnir halda sig stundum í varplöndunum árið um kring.

Útbreiðsla og ferðir
Rjúpan er staðfugl. Hún finnst um land allt, en er algengust í Þingeyjarsýslum. Stofnstærð sveiflast allreglubundið og um 10 ár líða á milli hámarka, allt að tífaldur munur getur verið á stofnstærð í lágmarki og hámarki. Heimkynni rjúpu eru allt umhverfis norðurheimskautið en einnig í Ölpunum og Pýreneafjöllum. Grænlenskar rjúpur hafa fundist hér á landi. Þær eru lítið eitt stærri en íslenskar og hafa hvíta stafi í handflugfjöðrum.


Texti: Fuglavefurinn
Mynd: María Björg Gunnarsdóttir