Fréttir

Þriggja og hálfsárs veiddi maríulaxinn

„Þetta var bara gaman en hann er ekki nema þriggja og hálfs árs strákurinn,” sagði Gunnar Gunnarsson en afastrákurinn Manúel Gunnarsson veiddi maríulaxinn sinn í Leirvogsá í gærdag.  En með þónokkri aðstoð afa síns við að landa laxinum, enda veiðimaður ekki stór og laxinn tók vel í.

„Já bara gaman að sá litli fékk fiskinn og aldrei að vita nema hann veiði fleiri fiska strákurinn, þetta var 4 punda lax og tók maðkinn.  Það var mikill fiskur um alla á og við fengum 16 laxa sem mátti veiða. Einu árnar sem eru bláar af laxi eru árnar,  þar sem fiskurinn er drepinn, en verða menn ekki að fara að endurhugsa þetta, veiða og sleppa dæmi.  Það gerist eitthvað í lífríki ánna þegar það var tekið upp með tilheyrandi minnkun í veiði. Þessi minnkun er enn meiri en veiði tölurnar segja til um þar sem margir fiskar eru veiddir oftar en einu sinni. Og menn fara oft frjálslega við skráningu veiddra fiska“ sagði Gunnar i lokin.

Leirvogsá er komin yfir vel yfir hundrað laxa.

Mynd. Gunnar Gunnarsson og afastrákurinn stuttu eftir að maríulaxinn veiddist. Mynd GG