Fréttir

Styttist í að Elliðaárnar detti í 200 laxa

Veiðin í Elliðaánum hefur verið fín og mikið gengið af laxi í þær. Vatnið er gott og mikið af fiski eins og veiðimennirnir segja sem renna í hana. „Við vorum í Elliðaánum í gær og það var fínt, fullt af fiski,” sagði Sigurður Sveinsson þegar við heyrðum í honum nýkomnum af árbakkanum.

„Það er allt stappað af fiski, Gísli félagi minn veiddi einn 80 sentimetra í Símastrengnum  og svo tvo á Hrauninu. Ég og Ýmir Andri einn í Hundasteinum, tvo í Teljarastreng og misstum tvo á Breiðunni í lok dags. Það er mikið líf í ánni um allt,” sagði Sigurður ennfremur.

Elliðaárnar eru að detta í 200 laxa á næstu klukkutímum, sem er fín veiði en þessa dagana er Þjórsá efst, síðan kemur Þverá í Borgarfirði og svo Norðurá.  Þjórsá hefur gefið 460 laxa, síðan Þverá með 400 laxa og Norðurá 350 laxa. 

Mynd. Ýmir Andri Sigurðsson einbeittur á svip við Elliðaárnar í gær. Mynd Sigurður.