FréttirUrriði

Flottir fiskar úr Vesturhópsvatni

Flottur fiskur hjá Sturlaugi Hrafni í Vesturhópsvatn

„Vesturhópsvatn er vatn sem ég hef veitt í alveg frá 5 ára aldri en þar eigum við fjölskyldan sumarbústað,“ segir Sturlaugur Hrafn Ólafsson þegar við heyrðum í honum nýkomnum úr veiðiferð og á leið í þá næstu. „Og höfum bara veitt á spún á bát en ég ákvað að prufa flugu úti á bát og stóri fiskurinn vill greinilega bara flugu dreigna á eftir bátnum. Svart hefur virkað best og þessi 6 – 7 punda birtingur tók stóra græna flugu frá Veiðihorninu. Svo veiddi ég annan stóran urriða í vikunni þar á undan á svartan nobbler nr 6, en sá urriði var 60 cm. Við veiddum 13 fiska um helgina.

Svo voru það Elliðaárnar.
„Já fyrir skömmu var barna- og unglingadagur í Elliðaánum á vegum SVFR. Ég og Eyjólfur Flóki vinur minn fengum úthlutað seinni vakt og Baldur afi hans kom með okkur. Á fyrstu stöðunum urðum við smá varir og veiddum bara urriðatitti. Eyjólfur veiddi svo einn stóran urriða ofarlega í ánni en við sáum alveg nokkra laxa stökkva. Svo vorum við komnir á þriðja-síðasta stað sem voru Hundasteinar og þar sá ég lax stökkva um leið og við komum. Ég setti á svartan frances nr 16 eða 18, vann mig niður og var búin að taka nokkur köst án þess að verða var, nema ég sá hann stökkva. Ég kasta aftur, lax á en hann losaði sig, tek 2 skref niður og tek nokkur köst, henda niður ána og hann er á og við tekur 15 mínútna barátta og á meðan eru laxar að stökkva alls staðar í kring. Landaður er maríulax, hængur 70 cm. Ég veit ekkert skemmtilegra en að veiða því veiði er það besta sem ég veit og sérstaklega eftir að ég byrjaði að veiða á flugu. Það er toppurinn,“ sagði Sturlaugur ennfremur.

Myndir. Flottir fiskar hjá Sturlaugi Hrafni í Vesturhópsvatni.