Fréttir

Veiðisumarið sem fáir vilja sjá aftur

Dræm laxveiði síðasta sumar

Veiðitölurnar eftir síðasta sumar liggja fyrir, laxveiðiárnar, margar hverjar, skiluðu minni veiði en árið á undan og sumarið það slappasta sem elstu menn muna og þeir muna ýmislegt. Eins og einn sagði, „Veiðin minnkar bara en samt er fleiri löxum sleppt á sama tíma, það virðist ekkert hafa að segja. Áður fór maður og veiddi í ánum, engu var sleppt samt var fín veiði og árnar ekki ofsetnar af fiski sem búið er að sleppa aftur og aftur,“ sagði veiðimaðurinn.

Kíkjum aðeins á veiðitölur úr nokkrum laxveiðiám sumarið 2023, Miðfjarðará gaf 1334 laxa en árið áður 1522 fiska, Þverá í Borgarfirði var með 1306 laxa, árið áður 1448. Selá í Vopnafirði gaf 1234 laxa og bætti sig um nokkra laxa á milli ára, var með 1164 árið áður. Hofsá gaf 1088 laxa en 1211 árið á undan. Norðurá í Borgarfirði gaf 1087 laxa en áður 1352. Svona má þræða sig niður listann og fá hausverk við lesturinn. Ytri Rangá og Eystri Rangár voru efstar.

Sumarið var alls ekki gott og ekki bætti úr skák að hnúðlaxinn kom inn þótt þúsund sinnum hafi verið verra að fá fullt var eldislöxum í árnar vestan og norðan lands. Hve margir laxar sluppu veit enginn en slysasleppingin var grafalvarleg og á líklega eftir að „menga“ laxveiðistofninn til framtíðar. Fullt var að laxi í mörgum ám sem ekki hefur náðst að handsama og er líklega er þetta ekki síðasta sjókvíaslysið, þau eiga eftir að fleiri.

Veiðin verður minni með hverju árinu því miður og enginn veit framhaldið, fleiri og fleiri löxum er sleppt en það virðist ekki skila því sem vænst var. Laxi hefur m.a. verið sleppt í Vatnsdalsá í Húnavatnssýslu til 30 ára en árangurinn lítill sem enginn. Það sama er að gerast í fleiri laxveiðiám en auðvitað ræður hafið líklegast meiru um útkomuna, t.d. er allur veiddur fiskur drepinn í Leirvogsá og áin að skila fínni veiði. Veiða/sleppa er alls ekki að skila þeim árangri sem vænst var, það sjá margir en fáir viðurkenna í orði.

Veðurfar er að breytast og engan snjó var að sjá fyrir síðustu áramót og hættan á þurrkasumri vex talsvert, en sumartíminn er alveg háður úrkomunni því miður og stjórnar miklu um laxagengd og veiðar.

Hvernig næsta sumar verður veit enginn en þó lækka veiðileyfin lítið sem ekkert á sama tíma og veiðin minnkar. Þetta er staðan en ljósi punkturinn er að laxveiðin hefst eftir 53 daga og hægt að fara á dorg til ná hrollinum úr sér.