Réttarhylur

Það var fjör í Jöklu í sumar og þessar myndir voru teknar af leiðsögumönnum þar Nils Jörgensen, Þresti Elliða og Snævarri Georgssyni. Veiðin var frábær og stórar göngur af stórlaxi strax frá opnun og síðan einnig smálax er leið á sumarið. Og stöðugt eru að koma í ljós nýir veiðistaðir sem sjaldan eða aldrei hafa verið veiddir áður og í þessari myndasyrpu má sjá nokkra þeirra.

Gljúfrið

Réttarhylur: Þetta er Réttarhylur sem er nokkuð ofar en hin þekkta Hólaflúð en í þennan veiðistað hafði ekki verið farið í nokkur ár er Nils tók þessa mynd. Þarna var stórlax að sýna sig sem tók ekki. Glæsilegur staður en þar sem það er 10-15 mínútna gangur í Réttarhyl er hann lítið stundaður, flestir staðir í Jöklu aðalsvæðinu eru með styttra aðgengi.

Gljúfrið heitir þessi staður rétt neðan við þjóðvegsbrú og eins og sjá má er þarna flúð sem kom svo í ljós í sumar rétt fyrir yfirfall að hélt mikið af laxi. Daginn áður en þessi mynd var tekin fór veiðimaður á þennan stað til könnunar og setti í 10 laxa á stuttum tíma og landaði 6!
Og flestir voru búnir að vera þarna einhvern tíma, jafnvel legnir og verður spennandi að veiða þennan stað er áin opnar sumarið 2024.

Kaldá

Kaldá sem rennur Jöklu neðarlega er hluti af Jöklusvæðinu og er lítið stunduð ofarlega þar sem hún rennur í litlum gljúfrum á milli glæsilegra hylja eins og þessum.

Brúarflúð

Brúarflúð er í gjúfrinu við þjóðvegsbrúna eins og sjá má hér. Nánast aldrei verið stunduð enda aðgengi ekki fyrir alla til að komast að henni. En í sumar var skotist í örfá skipti og gaf laxa í nánast hvert sinn!

Stapi

Stórlax úr veiðistaðnum Stapi. Fyrir nokkrum árum var þessi staður ekki stundaður þó hann væri merktur á korti enda var þá ekki ökufært alveg að honum. Nú er hann veiddur flesta daga og var í raun næst besti veiðistaður Jöklu á eftir Hólaflúð sumarið 2023!

SPORTVEIÐIBLAÐIÐ 3.tbl. 2023
MYNDIR/TEXTAR: Nils Jörgensen, Þröstur Elliða og Snævarr Georgsson