Fréttir

Veiðifólk – nokkur atriði til að hafa í huga

Kæra veiðifólk, nú þegar laxinn er enn eitt árið farinn að synda upp í íslenskar ár, langaði mig að nota tækifærið og minna á nokkur mikilvæg atriði. Líkt og flestir ættu að vita eru laxastofnar heimsins á niðurleið. Það er margt sem veldur, en því miður eru mannanna verk ofarlega á lista. Opið sjókvíaeldi, vatnsfallsvirkjanir, ofveiði, sjúkdómar og fleira ógnar tilvist þessara mögnuðu fiska.

Þetta eru allt stór vandamál sem ekki verða leyst á einum degi, en ef við hjálpumst öll að þá getum við breytt hlutunum. Það eru þó nokkrir hlutir sem er afar mikilvægt fyrir veiðifólk að hafa í huga þegar það heldur til veiða á laxi og geta stuðlað að heilbrigðari stofnum.

Veiða og sleppa er fyrirkomulag sem er orðið ráðandi í flestum laxveiðiám í dag. Ekki eru allir sammála um ágæti þessarar aðferðar, en allir geta þó verið sammála um það að veiða og sleppa byrjar upphaflega sem aðgerð til þess að tryggja að fleiri fiskar verði eftir í ánum til að hrygna og þar með vernda stofninn. Það er gríðarlega mikilvægt ef fólk er að veiða fisk og sleppa honum aftur að gera nokkur atriði rétt.

Fjallað hefur verið um þessi atriði áður, en þó sér maður allt of margt veiðifólk klikka á þessu. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Baráttan við fiskinn
Ekki dauðþreyta fiskinn, heldur taktu mjög fast á honum. Ef að fólk tekur laust á fiskum og þreytir þá lengi, þá þarf fiskurinn að nota miklu meira af sinni orku og er þar af leiðandi í verra standi eftir að baráttunni er lokið. Notið græjur sem þið treystið og ekki vera hrædd við að missa fisk vegna þess að tekið er fast á honum. Ef að græjurnar þínar þola ekki fiskinn, þá áttir þú líklega ekki að landa þessum fiski.

Þegar búið er að landa fiski
Forðist það eins og hægt er að fara með fiskinn upp á bakka og að halda honum lengi upp úr vatninu. Í Kanada og Danmörku eru dæmi um það að það sé hreinlega bannað að lyfta fiskinum upp úr vatninu. Það er vel skiljanlegt að fólk vilji fá mynd af sér með fiskinn, en forðumst eins og hægt er að halda honum upp úr vatninu lengi. Líkt og var nefnt fyrir ofan, þá þarf fiskurinn að nota mikla orku ef baráttan er löng, að vera síðan haldið á þurru landi í langan tíma dregur bara enn frekar úr fiskinum og minnkar líkur á að hann syndi aftur í burtu og hrygnir um haustið.

Sótthreinsun á veiðibúnaði
Sífellt fleiri Íslendingar halda út fyrir landssteinana í veiði. Meðal annars er mikið af fólki sem fer nú til Skotlands, Noregs og Kanada til að veiða lax. Í ám í þessum löndum eru allt aðrar bakteríur og allt annað lífríki en í íslenskum ám. Það er því gríðarlega mikilvægt að veiðifólk sem er að koma úr veiði erlendis frá láti sótthreinsa allan búnað mjög vel til að forðast sjúkdóma og sýkingar sem hafa herjað á laxastofna í öðrum löndum. Sumum þykir þetta vera vesen, en fólk ætti að spyrja sig að því hvort að það vilji bera ábyrgð á því að nýr sjúkdómur eða sýking herji á villtan fisk á Íslandi?

Ég óska ykkur annars gleðilegs veiðisumars og vona að fólk eigi góðar stundir á bakkanum. Komum fram við náttúruna og bráðina af virðingu, og það mun gera veiðina enn ánægjulegri.

Elvar Fridriksson
framkvæmdastjóri Verndarsjóðs Villtra Laxastofna (NASF á Íslandi)