Fréttir

Flottir fiskar úr Vatnsdalsá

Ólafur Stephensen með flotta fiska úr Vatnsdalsá.

„Við feðgin ákváðum að taka bíltúr í Húnavatnssýsluna og renna fyrir fisk í Hópinu fyrir fáeinum dögum,“ sagði Reynir Örn Þrastarson og bætti við; „þó veðurspáin hafi ekki verið neitt sérlega spennandi. Það var nú ekki mikið líf en við fengum í soðið og fórum kát í bæinn og unga veiðikonan Margrét Júlía reynslunni ríkari, vindbarin og rjóð í kinnum með tvo silunga í kæliboxi sem búið er að borða. Hópið er skemmtilegur veiðistaður og ágætis veiðivon en umgengni við vatnið er ekki til fyrirmyndar því miður,“ sagði Reynir ennfremur.

María Júlía með fisk úr Hópinu. Mynd Reynir.

Fín veiði hefur verið á silungasvæðinu í Vatnsdalsá og hollið sem var að hætta veiðum fékk um 80 fiska. „Við fengum um 80 fiska en þetta voru Oddfellowar sem voru þarna að veiða, það er alltaf gaman í Vatnsdalnum,“ sagði Ólafur Stephensen sem var á veiðislóðum fyrir fáeinum dögum.